Viðskiptablaðið hafði samband við nokkra einstaklinga í mismunandi greinum, spurði hvernig þeim fannst árið og hvað þeir vilja sjá á nýju ári. Hér svarar Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.

Hvernig var árið? Árið var ósköp venjulegt að flestu leyti fyrir okkur sem störfum í sjávarútvegi. Fiskmarkaðir sveifluðust og einkenndust af ástandi í hverju markaðslandi fyrir sig. Náttúran er fyrirsjáanleg, með sínum eðlilegu frávikum og fátt sem kom á óvart.

Það sem kom á óvart var framganga stjórnmálamanna. Mér er framganga þeirra í sjávarútvegsmálum að sjálfsögðu efst í huga. Þar skiptu rök, útreikningar eða útskýringar engu máli.

Hvað var vel gert? Mínar hugsanir tengjast vitaskuld fyrst og fremst sjávarútvegi. Þar verð ég að sjálfsögðu að hrósa starfsfólkinu fyrir dugnað og eljusemi við það óvissuástand sem greinin býr við. Það er einfaldlega ekki sjálfgefið að fólk haldi einbeitingu sinni og vilja til að bæta og gera betur við þær aðstæður sem greininni hafa verið skapaðar.

Hvað var slæmt? Það sem var slæmt og raunar afar hættulegt, er slæglegur undirbúningur eins og sá sem við urðum vitni að við undirbúning laga um stjórn fiskveiða. Þar voru færustu sérfræðingar sniðgengnir, ekkert hlustað á ráð þeirra sem sem störfuðu í greininni hvað þá að þeir sem sömdu lögin hafi rætt afleiðingar þeirra við þá sem áttu við þau að búa.

Ég hef oft líkt þessum vinnubrögðum við hvort veikur maður myndi frekar leita til mín með lækningu fremur en heimilislæknisins.

Hvað viltu sjá á nýju ári? Ég vil sjá mikið breytt vinnubrögð hjá okkur Íslendingum. Ég vil sjá meiri fagmennsku, dugnað og ráðdeild. Við eigum alla möguleika á að komast út úr þeim erfiðleikum sem við eigum við að stríða. Það tekst okkur ekki með þeim vinnubrögðum sem við höfum ástundað undanfarin ár.