Viðskiptablaðið hafði samband við nokkra einstaklinga í mismunandi greinum, spurði hvernig þeim fannst árið og hvað þeir vilja sjá á nýju ári. Hér svarar Stefán Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri Arctica Finance, spurningum blaðsins.

Hvernig var árið? Þetta ár eins og nokkur undanfarin ár einkenndist af áframhaldandi tímabili stöðnunar og óvissu. Á meðan þetta ástand varir gengur erfiðlega að koma nýfjárfestingu af stað. Þó fer fjölgandi jákvæðum fréttum s.s. af fyrirtækjum í ferðaþjónustu auk þess sem árferðið er hagstætt fyrir sumar útflutningsgreinar.

Hvað var vel gert? Á árinu voru hlutabréf nokkurra af lykil fyrirtækjunum í Íslensku atvinnulífi tekin til viðskipta í Kauphöll. Skráningarnar tókust í öllum meginatriðum vel og voru mikilvæg skref í þá átt að fjölga fjárfestingarkostum á markaði. Okkur hjá Arctica fannst sérstaklega ánægjulegt að kynnast kraftinum og fagmennskunni hjá CCP þegar við önnuðumst fyrir þá skuldabréfaútgáfu og lögðum þannig hönd á plóginn í að endurvekja innlendan markað með fyrirtækjaskuldabréf.

Hvað var slæmt? Að ekki hafi tekist að eyða eða a.m.k. draga úr áðurnefndri óvissu varðandi t.d. efnahags-, peningamála- og skattaumhverfið. Það hefur hamlað nauðsynlegri fjárfestingu í atvinnulífinu og þannig dregið úr líkum á sjálfbærum hagvexti til lengri tíma. Óvissa um langtíma rekstrarumhverfi margra af lykilatvinnugreinum landsins, s.s. sjávarútvegs og orkuiðnaðar, er afar óheppileg.

Hvað viltu sjá á nýju ári? Að skýrari línur verði lagðar í almennu rekstrar og fjárfestingarumhverfi þannig að framangreindri óvissu sé eytt en og kostur er. Í kjölfarið er von til að fjárfesting glæðist með tilheyrandi margföldunaráhrifum í efnahagslífinu. Þá þarf að finna raunhæfar leiðir til að ljúka uppgjöri föllnu bankanna. Aukning á fjárfestingu í kjölfar afléttingar gjaldeyrishafta er nauðsynlegur grundvöllur þess að skilyrði skapist fyrir því að hægt sé að hefja hér nýja sókn til langvarandi verðmætasköpunar og hagvaxtar.