Viðskiptablaðið hafði samband við nokkra einstaklinga í mismunandi greinum, spurði hvernig þeim fannst árið og hvað þeir vilja sjá á nýju ári. Hér svarar Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, spurningum blaðsins.

Hvernig var árið? Árið 2012 fer ekki í sögubækur fyrir miklar breytingar og árangur. Óvissan hefur ráðið ríkjum, bæði hérlendis og erlendis og of mikil orka og tími farið í að takast á við þá erfiðleika sem við hefur verið að glíma í kjölfar langvinnrar fjármálakreppu. Þetta hefur hægt á því að heimili, fyrirtæki og ríkissjóður hafi náð að styrkja sína fjárhagsstöðu.

Hvað var vel gert? Hér vil ég fjalla um Landsbankann. Ég er ánægður með þann árangur sem við höfum náð við að bæta gæði eigna bankans, vinnu við endurskipulagningu skulda og að vel tókst til við að draga úr vanskilum. Við skráðum Reginn dótturfélag bankans á markað í sumar og það heppnaðist vel. Landsbankinn hefur smám saman endurunnið sér traust almennings sem m.a. sést í sístækkandi markaðshlutdeild sem ekki hefur verið meiri um árabil.

Hvað var slæmt? Því miður erum við hér á landi enn of upptekinn við að vinna úr málum sem tengjast hruninu og árunum þar á undan. Vissulega hefur töluverður árangur náðst en vonbrigði hvað þessi mál hafa dregist á langinn.

Hvað viltu sjá á nýju ári? Ég myndi vilja sjá skýrari framtíðarsýn fyrir efnahagslífið í landinu sem m.a. byggðist á lækkandi skuldum og vaxtagreiðslum hjá ríkissjóði. Við þurfum að leggja sundrungu til hliðar og takast á við þau verkefni sem munu skila okkur sem þjóð sterkari samkeppnisstöðu til framtíðar.