Viðskiptablaðið hafði samband við nokkra einstaklinga í mismunandi greinum, spurði hvernig þeim fannst árið og hvað þeir vilja sjá á nýju ári. Hér svarar Svava Johansen, aðaleigandi NTC-keðjunnar, spurningum Viðskiptablaðsins.

Hvernig var árið? Árið var nokkuð gott,  við áttum yndislega gott sumar hér á Íslandi, það var líka lengra en oft áður. Þá hefur ágústmánuður dottið inn í að vera sumarmánuður þar sem hann var það ekki hér áður fyrr. Manni fannst hér áður sem sumarið væri búið eftir verslunarmennahelgina, en alls ekki sl 3-4 ár.  Ferðamannastraumurinn jókst um muna frá árinu á undan og eins versluðu ferðamenn enda er verðlag hér hagstætt fyrir þá.

Hvað var vel gert? Íslensk fatahönnun, sala á íslenskum iðnaði hefur snaraukist og tel ég við bara vera að hefja langa skemmtilega gögu þar ekki bara hér innanlands heldur mun aukningin eflaust vera mest erlendis. Kvikmyndageirinn blómstrar, gaman að fylgjast með Baltasar og hans fólki auk annarra kvikmyndaframleiðanda sem eru á selja myndir sínar erlendis. Hljómsveitir margar eru að gera frjábæra hluti bæði hér heima sem erlendis, gaman að nefna Of Monsters and Men, Ásgeir Trausti, og Retro Stefson en auðvitað fullt af öðrum listamönnum. Svo er ánægjulegt að sjá afreksfólk og hópa í íþróttum ná flottum árangri. Ég tel skrifstofu Umboðsmann skuldara hafa hjálpað mörgum að finna út úr sínum málum.  Þá var ég mjög ánægð að við fengum Ólaf og Doritt  aftur á Bessastaði.

Hvað var slæmt? Mér fannst þetta Eirarmál mjög slæmt - sorglegt að gamalt fólk sem á kannski ekki svo langt eftir á sinni lífsgöngu og búið að skila inn íbúðum eða húsum sínum í þennan sameiginlegan sjóð að það upplifi svona mistök. Ég tel kæruleysi stjórnenda þar ástæðu þess hvernig fór. Úrlausnir heimilanna - tel að ríkisstjórnin eigi að finna hratt endanlega lausn á því hvernig eigi að taka á íslenskum lánum - hjá því góða fólki sem  tók minni áhættu en virðist vera að lenda á verri stað en þeir sem tóku erlend lán. Í litlu samfélagi þá tel ég að einhver jafnréttisregla hljóti að halda utan um, þar sem búið er að færa erlendu lánin niður.

Hvað viltu sjá á nýju ári? Ég vil sjá olíuna finnast við Island !... já takk ...  hún er þarna. Ég vil sjá nýja ríkisstjórn á nýju ári. Það er verið að kaffæra fólk sem er í rekstri með endalausum sköttum og veldur undrun og reiði margra að hægt sé að fara mörg ár ( jafnvel 6 ár)  aftur í tímann og breyta reglum og rukka fyrirtæki um gífulegar upphæðir í skatta sem áður var ekki skattlagt skil ég ekki.  Það þarf að afnema tolla á öllum fatnaði - við erum í svo mikilli samkeppni við útlönd. Ekki á að hækka neina skatta á fyrirtæki og alls ekki í ferðamannageiranum, frekar að fá fleiri ferðamenn til landsins og taka tekjur inn á fjölda og magni. Ég vil sjá mikla sól bæði í huga og hjarta fólks sem og skína yfir landið... ég vil mæta á götum landsins brosandi samlöndum mínum sem elska Ísland... og að stefna okkar sé að rífa okkur upp úr nokkra ára leiðindum sem vinir og byggja upp siðferði , heiðarleika og kærleik á þann hátt sem við vorum alin upp við.