Bandarísku forsetakosningarnar fara fram eftir tæplega þrjár vikur, en niðurstöður þeirra geta haft umtalsverð áhrif á hvaða fjárfestingar séu góður kostur.

Þannig eru fjárfestar að veðja á sigur Joe Biden forsetaframbjóðanda Demókrata með kaupum á hlutum í fyrirtækjum sem byggja á grænni orku ásamt því að reyna að átta sig á hvernig mögulegar skattahækkanir hans á fyrirtæki hafi áhrif á fjárfestingar þeirra.

Hægt er að sjá auknar áhyggjur fjárfesta af niðurstöðum kosninganna út frá því hvaða eignir þeir hafa keypt til dreifa áhættu, sem og framvirka samninga byggðum á Cboe Volatility Index, sem er vísitala yfir væntar sveiflur í hlutabréfaverði.

Jafnframt hafa fjárfestingar færst í eignaflokka sem talið er að geti orðið fyrir jákvæðum áhrifum af sigri annars stjórnmálaflokksins eða hins. Líkt og flestar skoðanakannanir virðist sem 60% fjárfesta séu þar að veðja á sigur Biden en 40% á sigur Donald Trump sitjandi forseta og frambjóðanda Repúblikana.

Þetta hefur WSJ eftir Dan Clifton, sem er yfirmaður stefnumótunar hjá Strategas Reasearch Partners sem sett hefur upp körfur fjárfestinga út frá veðmálinu á hvor frambjóðandinn muni sigra.

Græn orka eða olíuborun á landi ríkisins

Slík karfa fyrir sigur demókrata inniheldur fyrirtæki í endurnýjanlega orkugeiranum, eins og Sunrun, NextEra Energy og Tesla, en Biden hefur lagt fram tillögur um 2.000 milljarða dala áætlun til að berjast gegn loftslagsbreytingum með fjárfestingum í innviðum raforkukerfa og til stuðnings rafmagnsbílum.

Þannig hefur vísitölusjóðurinn iShares Global Celean ETF sem fjárfestir í fyrirtækjum á S&P Global Clean Energy vísitölunni aukið verðmæti sitt um 86,42% síðasta árið.

Biden hefur jafnframt lagt fram tillögur um bann við olíu- og gasvinnslu á landi í eigu alríkisins, sem aftur hefur gert það að verkum að fyrirtæki eins og EOG Resources er valkostur þeirra sem veðja á sigur frambjóðanda Repúblikana.

„Það er í orkugeiranum þar sem mestar líkur á að hægt sé að sjá væntingar markaðarins um hvernig kosningarnar muni fara koma inn í verðþróunina,“ hefur WSJ eftir Kristina Hooper sem stýrir alþjóðlegri fjármálagreiningu hjá Invesco. „Þar er svo skýr munur á stefnu frambjóðandanna tveggja.“

Áhrif 8 prósentustiga skattahækkunar á fyrirtæki

Margir fjárfestar eru líka að reyna að leggja mat á áhrif sigurs annars hvors á fyrirtækjaskatta, en Biden hefur boðað að þeir verði hækkaðir úr 21% í 28%, sem og að hækka skatta á erlendar tekjur bandarískra fyrirtækja.

Greinendur Goldman Sachs telja að skattastefna Biden muni draga úr hagnaði fyrirtækja á S&P 500 vísitölunni um 9%, þó hægt sé að vænta þess að það jafnist að einhverju leiti á móti tekjum af auknum ríkisútgjöldum og afnámi tolla.

Karfa bankans yfir fyrirtæki sem myndu græða mest á að skattalækkanir Trumps frá 2017 haldi áfram virðist njóta minni hilli fjárfesta en karfan yfir þau fyrirtæki sem muni síður græða á lækkunum.

Einkerekin fangelsi og námslánafyrirtæki falla í verði

Önnur fyrirtæki sem gætu orðið fyrir áhrifum af breyttri stefnu eru þau sem reka fangelsin í Bandaríkjunum, en bæði Geo Group og CoreCivic hækkuðu mikið í virði eftir að Trump boðaði harðari stefnu gegn ólöglegum innflytjendum og brottflutningum, en þau hafa lækkað um 30% í virði í ár eftir að Biden lofaði að ríkið myndi hætta að nýta einkarekin fangelsi.

Lækkun hlutabréfa í lánsfyrirtækjum sem sérhæfa sig í námslánum hafa einnig lækkað í ár, því vænt er þess að Biden muni setja þeim enn þrengri reglugerðarskorður en nú er. Biden hefur jafnframt lofað að fella niður umtalsverðan hluta námslána bandarískra.

Sumir fjárfestar virðast svo veðja á að niðurstaða náist í tollastríðum við Kína, til að mynda með kaupum í tæknifyrirtækjunum Intel og Micron Technology.

Loks hafa báðir frambjóðendur lofað auknum útgjöldum í innviði Bandaríkjanna, en fyrirtæki sem framleiða byggingarefni eins og Vulcan materials og Granite Construction hafa hækkað mikið í verði síðan Trump var kosinn forseti árið 2016 vegna vona um slík útgjöld en þau hafa lækkað í virði á ný síðan.