Fyrirtæki munu skapa sér samkeppnisforskot með því að vera samfélagslega ábyrg. Hæft fólk mun ráða sig til starfa hjá þessum fyrirtækjum. Þetta sagði Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, á hátíðarfundi Ölgerðarinnar í dag.

Andri sagði tíma stórfyrirtækja sem svífast einskis vera liðinn. Fyrirtæki þurfi að huga að því hvernig þau hagi sér og hvaða áhrif þau hafi á neytendur. Hann nefndi sem dæmi að Ölgerðin hefði aukið úrval sitt á hollari vörum sem væru ósykraðar eða minna sykraðar. Þetta væri mótvægi við óhollustuna. Hinsvegar væru sykruðu vörurnar framleiddar enda væri allt gott í hófi. Hlutverk fyrirtækisins væri ekki að stjórna hegðun neytenda.

Á fundinum sagði Andri að það væru eflaust einhverjir að hrista höfuðið yfir þessu og spyrja „hvernig getur þessi sprúttsali verið trúverðugur að tala um samfélagslega ábyrgð?“ Hann sagðist skilja það.

Indra Nooyi, forstjóri PepsiCo, tók undir þetta og lagði áherslu á samfélagslega ábyrgð gagnvart neytendum.