Í gær voru birtar tillögur stjórnarskrárnefndar að þremur frumvörpum um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Í hverju frumvarpi fyrir sig er lagt til að bætt verði einni grein við stjórnarskrána og verði frumvörpin öll samþykkt mun greinum stjórnarskrárinnar því fjölga um þrjár.

Óvenjulega verður staðið að breytingu stjórnarskrárinnar í þetta sinn í samræmi við bráðabirgðaákvæði sem samþykkt var árið 2013. Í stað þess að þurfa að verða tvisvar samþykkt af Alþingi og komi Alþingiskosningar á milli, verða tillögurnar bornar undir þjóðaratkvæði. Samþykki Alþingi, með að minnsta kosti tveimur þirðju hluta greiddra atkvæða, skal stjórnarskrárfrumvarp borið undir þjóðaratkvæði. Til að frumvarpið teljist samþykkt þarf það að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni, þó minnst 40% allra kosningabærra manna.

Frestur til að gera athugasemdir við frumvörpin er til 8. mars næstkomandi.

Náttúruauðlindir

Fyrsta frumvarpið fjallar um náttúruauðlindir og gerir ráð fyrir því að á eftir 78. grein stjórnarskrárinnar komi eftirfarandi grein:

Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Þær ber að nýta á sjálfbæran hátt og til hagsbóta landsmönnum öllum. Ríkið hefur eftirlit og umsjón með meðferð og nýtingu auðlindanna í umboði þjóðarinnar.

Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þau eða veðsetja. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forsjá og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar.

Að jafnaði skal taka eðlilegt gjald fyrir heimildir til nýtingar auðlinda sem eru í eigu íslenska ríkisins eða þjóðareign. Veiting nýtingarheimilda skal grundvallast á lögum og gætt skal jafnræðis og gagnsæis. Slíkar heimildir leiða aldrei til varanlegs eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindum.

Þjóðaratkvæðagreiðslur

Annað frumvarpið fjallar um þjóðaratkvæðagreiðslur og gerir ráð fyrir því að á eftir 78. grein stjórnarskrárinnar komi eftirfarandi grein:

Fimmtán af hundraði kosningarbærra manna geta krafist þess að nýstaðfest lög frá Alþingi verði borin undir þjóðina í almennri, leynilegri og bindandi atkvæðagreiðslu. Kröfuna ber að leggja fyrir ráðherra innan fjögurra vikna frá birtingu laganna og skal atkvæðagreiðslan fara fram í fyrsta lagi sex vikum og í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir að staðfest krafa liggur fyrir. Fjárlög, fjáraukalög, lög um skattamálefni og lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum verða ekki borin undir þjóðina samkvæmt þessari málsgrein.

Fimmtán af hundraði kosningarbærra manna geta enn fremur krafist þess að ályktun Alþingis skv. 21. gr. verði borin undir þjóðina í almennri, leynilegri og bindandi atkvæðagreiðslu. Heimilt er með lögum, sem samþykkt eru með 2/3 hlutum atkvæða á Alþingi, að ákveða að sama gildi um ályktanir sem hafa réttaráhrif eða fela í sér mikilvæga stefnumörkun. Krafan þarf að berast ráðherra innan fjögurra vikna frá samþykkt Alþingis og skal atkvæðagreiðslan fara fram í fyrsta lagi sex vikum og í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir að staðfest krafa liggur fyrir.

Alþingi getur ákveðið að fella úr gildi lög eða afturkalla ályktun áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur og fer hún þá ekki fram.

Til þess að hnekkja lögum eða ályktunum samkvæmt þessari grein þarf meiri hluti í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó minnst fjórðungur kosningarbærra manna, að synja þeim samþykkis.

Með lögum, sem samþykkt eru með 2/3 hlutum atkvæða á Alþingi, skal mælt nánar fyrir um upphafstíma og fyrirsvar undirskriftasöfnunar, form og söfnun undirskrifta, miðlun upplýsinga, framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu og lausn ágreiningsmála fyrir dómstólum.

Umhverfis- og náttúruvernd

Þriðja frumvarpið fjallar um umhverfis- og náttúruvernd og gerir ráð fyrir því að á eftir 78. grein stjórnarskrárinnar komi eftirfarandi grein:

Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvílir sameiginlega á öllum og skal verndin grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Stuðlað skal að því að fjölbreytni náttúrunnar sé viðhaldið og vöxtur lífríkis og viðgangur tryggður.

Allir skulu njóta heilnæms umhverfis. Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Ganga skal vel um náttúruna og virða hagsmuni landeigenda og annarra rétthafa. Mælt skal nánar fyrir í lögum um inntak og afmörkun almannaréttar.

Í lögum skal mælt fyrir um rétt almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það svo og til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið.