Ramón Calderón, fyrrverandi forseti spænska knattspyrnuliðsins Real Madrid, mun ásamt íslenskum samstarfsaðilum standa fyrir ráðstefnu í Hörpu í maí um árangur Íslands undir yfirskriftinni „Hvernig fór Ísland að þessu?“ Í tilkynningu segir að markmið ráðstefnunnar sé að velta því upp hvaða lærdóma megi draga af því hvernig Íslandi hefur tekist að snúa vörn í sókn í bæði íþróttum og efnahagsmálum.

Calderón kynnti ráðstefnuna á fundi í höfuðstöðvum Íslandsbanka á Kirkjusandi í dag, en Íslandsbanki er samstarfsaðili ráðstefnunnar.

Í tilkynningunni er haft eftir Calderón að það sé með ólíkindum að hafa fylgst með Íslendingum frá því að bankarnir hrundu árið 2008 og hvernig þjóðin hafi náð að standa saman í því að snúa við að því sem virðist vonlausri stöðu yfir í að vera aftur komin í fremstu röð í lífsgæðum þjóða. Það sama gildi um íþróttaiðkun Íslendinga. Spyr hann hvernig svona lítil þjóð hafi náð þeim árangri að komast á lokamót Evrópukeppni í handbolta, körfubolta og svo nú í knattspyrnu, bæði hjá körlum og konum.