Óhætt er að fullyrða að styrking krónunnar undanfarin misseri sé fordæmalaus. Á einum mánuði styrktist krónan til að mynda um 7% gagnvart Bandaríkjadal, 5% gagnvart breska pundinu og rúm 4,3% gagnvart evru. Á einu ári hefur krónan styrkst um 16 til 25 prósent gagnvart þessum gjaldmiðlum og um 19 til 22 prósent gagnvart hinum norrænu myntunum.

Eins hefur nafngengi krónunnar að mati greiningardeilda ekki styrkst jafn mikið á 12 mánaða tímabili. Í ástandi sem þessu eru það helstu máttarstólpar íslensks atvinnulífs á borð við sjávarútveginn og ferðaþjónustuna sem þjást. Svo virðist sem afkoma í útflutningsgreinum fari hratt versnandi og samkvæmt nýlegri greiningu Arion banka hefur EBITDA sjávarútvegsfyrirtækja hvergi aukist síðastliðna mánuði og fleiri ferðaþjónustufyrirtæki telja afkomu sína hafa versnað en batnað.

Er hægt að hafa áhrif á styrkingu krónunnar?

Ástand krónunnar er margra mati óviðunandi og reglulega heyrast þær raddir úr atvinnulífinu að stjórnvöld og Seðlabankinn verði að grípa til aðgerða til að bjarga íslensku útflutningsgreinunum. En til hvaða aðgerða geta stjórnvöld í raun gripið og er fyrirséð að slíkar aðgerð skili tilætluðum árangri?

Að mati Konráðs S. Guðjónssonar, sérfræðings hjá greiningardeild Arion banka, er hægt að hafa áhrif á gengi krónunnar með ýmsum leiðum. „Seðlabankinn getur t.d. gert það með því að kaupa/selja gjaldeyri eða með því að breyta peningamagni í umferð. Undanfarið hefur Seðlabankinn t.d. haldið aftur af gengisstyrkingu, eða a.m.k frestað henni, með því að kaupa gjaldeyri í massavís. Ef peningamagn í umferð eykst verulega getur það líka haft áhrif til veikingar krónunnar, en þá einnig aukið verðbólgu,“ segir Konráð.

Eins segir hann að ríkið geti að einhverju leyti stýrt genginu með með skattheimtu, styrkjum og öðrum inngripum. „Það væri til dæmis tæknilega séð hægt að banna komur ferðamanna til landsins og það myndi hafa veruleg áhrif á gengi krónunnar, en það væri erfitt að stjórna hversu mikil þau áhrif verða. Fyrir utan að engum myndi detta það í hug. Í heildina er þó frekar erfitt að handstýra gengi gjaldmiðla eins og öðrum verðum sem eru háð markaðsöflunum.

Eins og reynslan víða sýnir þá hefur fastgengisstefna oftar en ekki fallið um sjálfa sig til lengdar, oftast þegar raungengi gjaldmiðla er orðið of hátt. Í stuttu máli má því segja að hið opinbera getur haft talsverð áhrif á gengi krónunnar, en það er þó mjög erfitt að stýra genginu nákvæmlega þannig að það endurspegli undirliggjandi efnahagsástand,“ útskýrir Konráð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.