Meiri aukning varð á erlendum ferðamönnum undanfarið sumar en gert var ráð fyrir og talað var um að komið væri að þolmörkum hér á landi. Áætlað er að 1,2 milljónir ferðamanna sæki Ísland heim á árinu, hins vegar benda spár til þess að á næstu árum verði þeir orðnir 2 milljónir. Ekkert hefur dregið úr áhuga ferðamanna á Íslandi undanfarið og því má búast við að þessar spár rætist. Það er þó ýmislegt sem þarf að huga að til að geta tekið á móti þessum aukna fjölda.

Ekki komið að þolmörkum

Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, segir að ekki sé komið að þolmörkum, langt því frá. Hins vegar þurfi klárlega að byggja meira upp og styrkja innviði. Einnig telur hann að bæta þurfi upplýsingaflæði til ferðamanna. Hann bendir á að á stöðum eins og Þingvöllum vanti ekkert klósett, það sé ólíðandi að fólk nýti sér ekki þá aðstöðu. Það þurfi bæði að gera ferðamönnum grein fyrir því að þeir geti ekki gert það sem þeir vilja á Íslandi auk þess að benda þeim á aðstöðu sem í boði er.

Spurður af hverju hann telji að við höfum brugðist svona illa við fjölgun ferðamanna þegar farið var í landkynningu og aukningin lá fyrir segist Skapti telja að þó að aukningin hafi ekki komið á óvart hafi fjölgunin það sem af er ári þó verið meiri en búist var við. Skapti leggur einnig áherslu á að dreifa ferðamönnum betur um landið. „Eins og staðan er í dag er aðalatriðið að landsbyggðin geti tekið við fleiri ferðamönnum,“ segir Skapti. „Ef ferðamannafjöldinn nær tveimur milljónum þarf þó að auka við þessa innviði og efla þá eins og vegakerfið. Það liggur í augum uppi, í dag eru um 17.500 bílaleigubílar í umferð.“ Í byrjun september kemur út stefnumótun sem Guðfinna Bjarnadóttir hefur stýrt á vegum Atvinnuvegaráðuneytisins og Samtaka ferðaþjónustunnar. Skapti segir að í stefnumótuninni verði tekið á hvernig við ætlum að taka á móti auknum fjölda gesta.

Tvöfalda þarf gistirýmið í Reykjavík

Ljóst er að ef ferðamönnum fjölgar í takt við spár verður veruleg þörf á fjölgun hótelherbergja á landinu. Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu hafa undanfarin ár um 95% ferðamanna heimsótt höfuðborgarsvæðið á ferð sinni um landið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .