Nú styttist óðum í næstu Alþingiskosningar og eru stjórnmálaflokkar farnir að birta kosningastefnur sínar. Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, kallar eftir að allir stjórnmálaflokkar sem ætla að taka þátt í kosningunum birti sín „draumafjárlög“.

„Hugsið ykkur bara - þetta myndi draga fram forgangsröðunina sem allt snýst um. Er stefnan raunhæf? Hvernig á að vera mögulegt að hækka þessa skatta? Hvernig á að fjármagna þetta? Hversu mikið raunverulega viljiði setja í málaflokk X?,“ skrifar Konráð í færslu á Twitter. „Einhver orð í stefnuskrá blikna í samanburði.“

Sjálfur hefur hann búið til líkan þar sem hægt er að stilla útgjöld til málaflokka ásamt því að ákveða skatta og aðra tekjuliði ríkissjóðs. Líkanið birtir síðan afkomu, skuldastöðu og vaxtagjöld ríkissjóðs á myndrænan hátt út frá þeim stærðum sem eru valdar. Niðurstaðan er einnig sett í samhengi við afkomu annarra þjóða.

Hægt er að nálgast líkanið á Grid-síðu Viðskiptaráðs. Þar bendir Konráð á að Alþingi taki ákvarðanir á hverju ári um hvernig skuli ráðstafa um 1.000 milljörðum króna, sem nemur um þriðjungi af öllum þeim verðmætum sem Íslendingar skapa sér. „Úrlausnarefnið er krefjandi og kallar á forgangsröðun og gagnsæi.“