Viðskiptablaðið hafði samband við nokkra einstaklinga í mismunandi greinum, spurði hvernig þeim fannst árið og hvað þeir vilja sjá á nýju ári. Hér svarar Arnaldur Birgir Konráðsson, framkvæmdastjóri Boot Camp, spurningum Viðskiptablaðsins.

Hvernig var árið? Árið var gott hjá okkur í Boot Camp. Við fluttum höfuðstöðvar okkar í Elliðaárdalinn um mitt sumar. Það var ólýsanleg tilfinning að opna á björtum sumardegi og dalurinn hefur klárlega tekið vel á móti okkur.

Hvað var vel gert? Árangur íslenskra íþróttamanna stendur upp úr á árinu. Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu náði að komast inn á EM, fimleikahópurinn í Gerplu varð Evrópumeistari, Gunnar Nelson varð atvinnumaður í blönduðum bardagaíþróttum, Annie Mist varð heimsmeistari í crossfit og svo náðum við langt á Ólympíuleikum fatlaðra í sumar.

Hvað var slæmt? Líkt og margir vita stóðum við hjá Boot Camp í baráttu við VG í aðdraganda flutninganna. Dapurlegast þótti mér hvað krafti embættismanna er oft beint í ranga átt. Á sama tíma og fyrirtæki og einstaklingar vilja taka þátt í uppbyggingu í þjóðfélaginu þá eru stjórnvöld að berja niður kraftinn í stað þess að gera það sem í þeirra valdi stendur til að létta undir.

Hvað viltu sjá á nýju ári? Ég vil sjá yfirvöld opna augun fyrir því hvað við eigum mikið af flottum fyrirtækjum og kröftugum einstaklingum sem vilja ná árangri og taka þátt í uppbyggingu þjóðfélagsins. Ef stjórnvöld ætla endalaust að auka álögur á fyrirtæki þá gefast þau upp, flytja úr landi eða leggja upp laupana.