Viðskiptablaðið hafði samband við nokkra einstaklinga í mismunandi greinum, spurði hvernig þeim fannst árið og hvað þeir vilja sjá á nýju ári. Hér svarar Brynja Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Norvik, spurningum Viðskiptablaðsins.

Hvernig var árið? Árið 2012 var að ýmsu leyti áhugavert. Varðandi reksturinn hjá Norvik stendur upp úr opnun á nýjum sögunarmyllum annars vegar í Eistlandi og hins vegar í Rússlandi. Á Íslandi sést glöggt að ýkt skattheimta er farin að hafa mikil áhrif á almenna eftirspurn. Hins vegar stendur upp úr að hafa eignast dótturson á árinu.

Hvað var vel gert? Það sem mér finnst áhugavert á Íslandi um þessar mundir er stofnun fjölmargra nýrra sprotafyrirtækja bæði tæknifyrirtækja, hönnunarfyrirtækja o.s.frv. Mér finnst það sýna þann kraft sem býr innra með íslensku þjóðinni og alþjóða kreppur bíta ekki á.

Hvað var slæmt? Mér hefur fundist undanfarin ár einkennast af þeirri stjórnmálakreppu sem við búum við á Íslandi. Margar mjög misvitrar ákvarðanir hafa verið teknar (og margar nauðsynlegar ekki teknar) og vil ég einkum nefna þá skattastefnu sem við búum við og síðan óttast ég þær breytingar sem eru fyrirsjáanlegar á fjöreggi þjóðarinnar, sjávarútveginum. Fyrst og fremst þurfa þó gjaldeyrishöftin að víkja.

Hvað viltu sjá á nýju ári? Á nýju ári vil ég sjá nýtt upphaf. Ég vil að við Íslendingar hættum að horfa í baksýnisspegilinn og hættum að eyða öllum okkar tíma og orku í réttarsölum og tökum höndum saman og sköpum þær aðstæður á Íslandi sem gerir það áhugavert fyrir næstu kynslóðir að taka við kyndlinum í áframhaldandi uppbyggingu.