Viðskiptablaðið hafði samband við nokkra einstaklinga í mismunandi greinum, spurði hvernig þeim fannst árið og hvað þeir vilja sjá á nýju ári. Hér svarar Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP Banka, spurningum Viðskiptablaðsins.

Hvernig var árið? Ég er mjög ánægður með árið 2012. Þetta var fysta heila starfsárið í nýjum MP banka og þrátt fyrir hraða uppbyggingu og snúið ytra umhverfi hefur reksturinn gengið mjög vel.

Hvað var vel gert? Mér finnst að okkur, starfsfólki bankans, hafi gengið vel að kynna bankann, veita viðskiptavinum okkar trausta og faglega þjónustu og afla þeim og bankanum sjálfum viðskiptatækifæra.

Hvað var slæmt? Það var í þau fáu skipti sem aðilar þáðu ekki þjónustu okkar eða aðkomu að verkefnum sem við sóttumst eftir að sinna. Slík tilvik finnast mér auðvitað óskiljanleg.

Hvað viltu sjá á nýju ári? Glaða og metnaðarfulla samstarfsmenn á hverjum morgni þegar ég mæti í vinnuna og ánægða viðskiptavini. Í ytra umhverfinu vil ég sjá stjórnvöld skapa forsendur til þess að unnt sé að efla atvinnulífið og bæta lífskjör með stórauknum fjárfestingum. Einkum þeim sem skila gjaldeyristekjum.