Fyrsti aðalfundur hjá nýjum forstjóra og stærsta eiganda HB Granda, Guðmundi Kristjánssyni, var haldinn á dögunum. Þegar ársreikningur síðasta árs var birtur sagði Guðmundur að rekstrarafkoma félagsins hefði ekki verið ásættanleg. Hins vegar hefur markaðsvirði Granda í Kauphöllinni lítið breyst þrátt fyrir lakari afkomu og loðnubrest.

Hagnaður fyrirtækisins hefur minnkað á síðustu árum vegna styrkingar íslensku krónunnar og hærri veiðigjalda,“ sagði Guðmundur þegar afkoma síðasta árs var tilkynnti. Rekstrartekjur ársins drógust saman á árinu og voru 211 milljónir evra miðað við 217 milljónir evra árið 2017. Hagnaður ársins hækkaði milli ára og var 32,2 milljónir evra í samanburði við 24,8 milljónir evra árið 2017. Töluverður hluti af hagnaðinum var vegna sölu á laxeldisfyrirtæki í Síle sem skilaði 15 milljónum evra. Þegar  horft er til  sjóðsstreymis var reksturinn töluvert lakari í fyrra hvað varðar sölu, framlegð, EBITDA o.s.frv. sér í lagi á fyrri helmingi ársins.

Hagnaður HB Granda hefur verið á niðurleið síðan 2013-2015 en þá var arðsemi félagsins mjög góð. Viðsnúningur var á rekstri Granda til hins betra á seinni helmingi síðasta árs en engu að síður eru blikur á lofti í rekstrinum. Uppsjávarhluti HB Granda hefur gengið mjög vel síðastliðin ár og hefur uppsjávaraflinn skilað félaginu tæpum 20 milljónum evra í framlegð árlega. Loðnubrestur yrði því þungt högg. Hins vegar hefur markaðsvirði HB Granda hefur lítið breyst síðustu tvö ár, t.d. eru hlutabréf félagsins nú 9% dýrari en fyrir 12 mánuðum.

Snorri Jakobsson, greinandi hjá Capacent, segir erfitt að fá markaðsverð út frá sjóðsstreymismati. „Þrátt fyrir sífellt lakari rekstur og verri rekstraraðstæður hefur markaðsverð HB Granda alltaf verið að hækka. Reglulega reiknum við verðmatsgengi fyrir félagið og síðastliðin tvö ár hefur bilið milli okkar mats og markaðsverðs farið stækkandi. Við höfum reyndar ekki uppfært matið út frá birtingu ársreikningsins en við fyrstu sýn og í ljósi loðnubrests á ég frekar von á að matið verði fært niður,“ segir Snorri í samtali við Viðskiptablaðið.

Önnur leið til að verðleggja HB Granda er að reikna upplausnarvirði félagsins en verðmætasta eign félagins eru aflaheimildir. Á þessu fiskveiðiári nam úthlutun Granda tæplega 37 þúsund þorskígildistonnum. Eins og greint var frá í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins hefur verð á varanlegum aflaheimildum hækkað umtalsvert undanfarin ár. Í byrjun árs 2016 kostaði kíló af þorskkvóta 2.500 krónur en hefur hækkað upp í 3.100 krónur eða sem jafngildir um 20% hækkun. Til að gefa mynd af því hvað verð aflaheimilda er mikilvægt fyrir efnahagsreikning HB Granda þýðir kvótaverðshækkunin undanfarið að verðmæti eigna félagsins hafi aukist um 22,5 milljarða króna ef verðmæti núverandi úthlutunnar í þorskígildiskíló er jafnt kvótaverði í þorski.  Skv. greiningu Capacent er raunverulegt verðmæti aflaheimilda HB Granda tæpir 50 milljarðar króna sem þýðir að upplausnarvirði félagsins sé um 57-60 milljarðar en það er einmitt í samræmi við markaðsvirði félagsins í Kauphöll.

Leiguverð aflaheimilda hefur lækkað mikið undanfarin misseri sem gefur til kynna að þrýstingur sé til lækkunar á verði varanlegra aflaheimilda. Ef verðlagning HB Granda tekur fyrst og fremst mið af verðmæti aflaheimilda, eins og ýmislegt bendir til, gæti mikil lækkun kvótaverðs haft afdrifaríkari afleiðingar fyrir gengi hlutabréfa félagsins en loðnubrestur.