Kristján Þór Júlíusson heilbrigðismálaráðaherra birti í gær svar við fyrirspurn Vilhjálms Árnasonar þingmanns Sjálfstæðisflokks um kostnað heilbrigðiskerfisins vegna umferðarslysa.

659 milljóna banaslys?

Meðal annars spurði Vilhjálmur um hver beinn kostnaður heilbrigðiskerfisins væri af hverju og einu banaslysi í umferðinni. Í svari Kristjáns Þórs notast hann við skýrslu sem unnin var á vegum Haralds Sigþórssonar og Vilhjálms Hilmarssonar fyrir Vegagerðina.

Morgunblaðið fjallaði um tilsvör heilbrigðismálaráðherra, og fullyrti meðal annars að hvert dauðsfall kostaði heilbrigðiskerfið heilar 659 milljónir króna - þegar í svari ráðherra er gengið að því að milljónirnar 659 séu heildartap þjóðfélagsins í krónum við hvert banaslys sem verður í umferðinni. Morgunblaðið leiðrétti síðar frétt sína.

Í fyrrnefndri skýrslu víkja höfundar að því að banaslys í umferðinni kosti þjóðfélagið ríflega 659 milljónir árlega - en þá eru kostnaðarliðir ekki dregnir í sundur. Aðeins heildartalan er birt. Alvarleg slys kosta þjóðfélagið þá 80 milljónir, meðan minniháttar slys um 30 milljónir króna.

Teresa-kerfið metur mannlegt tjón

Hin svokallaða ‘Teresa’ aðferð, sem notuð er í Danmörku til að meta verðlag á mannslífi, er þá notað og yfirfært á Ísland. Þá eru verðlags- og launavísitölur Íslands reiknaðar yfir þær dönsku, með viðmiði af hlutfallslegum kostnaði heilbrigðiskerfisins af vergri landsframleiðslu.

Auk þess er tekið mið af skýrslum Hagfræðistofnunar frá árunum 1996 og 2012, og tölur úr skýrslu Línuhönnunar frá 2006 eru þá einnig notaðar til matsins. Teresa-kerfið skiptir kostnaði í fimm flokka:

  • Lögsýsla og slökkvilið - 320.000 kr
  • Kostnaður heilbrigðiskerfis - 90.000 kr
  • Nettó framleiðslutap - 55.660.000 kr
  • Töpuð framtíðarneysla einstaklings - 87.060.000 kr
  • Virði tölfræðilegs mannlífs - 341.060.000

Er virði meðalíslendings 341 milljón?

Það er ljóst að kostnaður heilbrigðiskerfisins, ef marka má skýrslugerð Harald og Vilhjálms, er ekki mikill - rétt um 90 þúsund krónur - af hverju dauðsfalli sem orsakast af slysförum í umferðinni. Hins vegar er annað mál, hvort hægt sé að meta nema stórlega gróft, hvort virði tölfræðilegs mannlífs sé 341 milljón króna.

Skýrsla Hagfræðistofnunar frá 1996 metur virði meðalmannsins sem rúma 341 milljón króna, og Haraldur og Vilhjálmur telja það mat vera nákvæmt miðað við staðlað evrópskt gildi sem aðrir vísindamenn hafa notað, þegar því er deilt niður á landsframleiðslu.

Vísindi þess að meta mannlíf til krónutölu hljóta að vera ónákvæm í besta lagi - sérstaklega þegar miðað er við meðaltal - og ólíklegt er að raunsætt sé að nokkurn tímann verði hægt að meta slíka óræða stærð með einhverri nákvæmni. Þó er forvitnilegt mjög að velta hlutum sem þessum fyrir sér - þótt ef til vill sé aðeins um að ræða grófar áætlanir.