Viðhorfskönnun á vegum Capacent, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, spyr í dag um stöðu, tilgang og viðhorf einstaklinga gagnvart Stoðum (áður FL Group).

Athygli vekur að spurt er um áhuga einstaklinga á mögulegum fjárfestingum í Stoðum en félagið var skráð úr Kauphöll Íslands fyrir rúmum tveimur mánuðum, á meðan það hét enn FL Group.

Spurningin hljómar þannig:

„Setjum sem svo að þú ættir eina milljón sem þú ætlaðir að verja í kaup á hlutabréfum, hversu mikinn eða lítinn áhuga hefðir þú á að kaupa hlutabréf í Stoðum ef þér gæfist þess kostur?“

Júlíus Þorfinnsson, forstöðumaður samskiptasviðs Stoða segir í tölvupósti til Viðskiptablaðsins að Stoðir, líkt og fleiri fyrirtæki, láti kanna reglulega viðhorf almennings í garð félagsins – aðspurður um tilgang spurningarinnar og hvort verið sé að íhuga að skrá Stoðir aftur á markað.

„Þessi tiltekna spurning, um áhuga á að kaupa hlutabréf í Stoðum ef þess gæfist kostur, hefur eingöngu rannsóknartilgang. Við erum einfaldlega að reka niður mælistikur, eins og við höfum gert sl. ár og munum halda áfram að gera. Það þarf töluvert hugmyndaflug til að sjá í þessu vísbendingu um að Stoðir ætli á markað, enda innan við þrír mánuðir síðan bréf félagsins voru skráð af markaði,“ segir Júlíus.

Þátttakendur í könnun Capacent eru einnig spurðir hvað það er sem þeim dettur fyrst í hug þegar þeir heyra um Stoðir. Þá er spurt hversu jákvæðir eða neikvæðir viðkomandi einstaklingar erum gagnvart Stoðum.

Aðrar spurningar könnunarinnar hljóma þannig:

„Hver heldur þú að sé meginstarfsemi Stoða?"

„Er einhver einstaklingur sem þér dettur í hug í tengslum við Stoðir?"

„Telur þú að Stoðir styðji fjárhagslega vel eða illa við ýmis málefni sem snerta land og þjóð?"

„Telur þú að það sé almennt gott eða slæmt að vinna hjá Stoðum?"