*

mánudagur, 30. mars 2020
Innlent 18. október 2019 15:01

Hvert áfallið rekið annað

Tap Arion banka vegna United Silicon nemur nú um 5,6 milljörðum króna að teknu tilliti til skatta.

Ástgeir Ólafsson
Hrein virðisbreyting Arion banka hefur verið neikvæð um 6,6 milljarða á síðustu átta ársfjórðungum
Haraldur Guðjónsson

Arion banki greindi frá því í afkomuviðvörun sem bankinn sendi frá sér á mánudag að neikvæð áhrif af aflagðri starfsemi og eignum til sölu á afkomu á þriðja ársfjórðungi myndu nema um 3 milljörðum króna að teknu tilliti til skatta. Skýrðist tapið á fjórðungnum af þremur þáttum.

Í fyrsta lagi voru eignir Stakksbergs, eignarhaldsfélags um United Silicon silíkonverksmiðjuna í Helguvík færðar niður um 1,5 milljarða og voru erfiðar markaðsaðstæður meðal annars vegna lágs heimsmarkaðsverðs á silíkoni nefndar sem helsta ástæða niðurfærslunnar. Í öðru lagi voru eignir TravelCo færðar niður um 600 milljónir króna vegna erfiðleika í ferðaþjónustu. TravelCo var stofnað í október 2018 og tók yfir ferðaskrifstofur í eigu Primera Travel Group í kringum gjaldþrot flugfélagsins Primera Air. TravelCo tók þá einnig yfir skuldir Primera Travel Group við Arion banka, sem var viðskiptabanki samstæðunnar. Í þriðja lagi voru áhrif af starfsemi Valitor neikvæð um 900 milljónir vegna aukins taps í starfsemi félagsins.

Afkoma bankans hefur versnað á 7 af síðustu 8 ársfjórðungum og var tólf mánaða hagnaður bankans í lok annars ársfjórðungs um 74% lægri en hann var á sama tímabili fyrir tveimur árum. Þess ber að geta að afkoma stóru bankanna hefur dregist saman á síðustu árum en til samanburðar versnaði afkoma Íslandsbanka um 46% yfir sama tímabil á meðan afkoma Landsbankans hefur aukist um 4,2%.

Kísillinn kostað 5,6 milljarða 

Óhætt er að segja að hvert áfallið hafi rekið annað í rekstri Arion banka síðastliðin tvö ár. Segja má að vandræði Arion banka hafi hafist þegar verksmiðja United Silicon varð gjaldþrota á þriðja ársfjórðungi 2017. Bankinn var aðallánveitandi verkefnisins og tók yfir reksturinn sem settur var inn í eignarhaldsfélagið Stakksberg. Unnið hefur verið að því að laga verksmiðjuna og koma henni í gang á nýjan leik með það að markmiði að selja hana. Gjaldþrotið á árinu 2017 varð til þess að tap bankans vegna United Silicon nam um 4,1 milljarði að teknu tilliti til skatta og nemur tap bankans vegna verksmiðjunnar eftir nýjustu niðurfærsluna því um 5,6 milljörðum króna.

Næsta stóra áfall fyrir lánabók bankans kom svo á þriðja ársfjórðungi síðasta árs þegar flugfélagið Primera Air varð gjaldþrota en Arion banki var viðskiptabanki Primera Travel Group samstæðunnar. Nam tap bankans vegna gjaldþrotsins um 2,5 milljörðum fyrir skatta á þriðja ársfjórðungi en bankinn tók einnig yfir ferðaskrifstofur í eigu samstæðunnar sem fóru inn í félagið TravelCo sem er nú í söluferli hjá Arion. Eftir niðurfærslu á eignum þess félags í byrjun vikunnar nemur tap bankans því yfir 3,1 milljarði króna án tillits til skatta.

Sjá einnig: „Arion er farinn að minna á Sambandið“

Eftir gjaldþrot Primera voru raunir Arion banka vegna flugreksturs þó ekki á enda. Bankinn tók þátt í skuldabréfaútboði WOW á síðasta ári auk þess að vera einn af lánveitendum félagsins. Samtals nam tap Arion vegna falls WOW air um 1 milljarði króna að teknu tilliti til skatta. Á sama ársfjórðungi hafði dómssátt í máli Datacell gegn Valitor, dótturfélagi Arion einnig 600 milljóna neikvæð áhrif á hagnað af aflagðri starfsemi en Valitor var sett í söluferli fyrr á þessu ári.

Á síðustu átta ársfjórðungum hefur hrein virðisbreyting hjá bankanum verið neikvæð um 6,6 milljarða króna á meðan afkoma af aflögðum rekstri hefur verið neikvæð um 3,5 milljarða á sama tímabili auk þeirra þriggja milljarða sem munu bætast við á þriðja ársfjórðungi en Arion mun birta uppgjör fyrir fjórðunginn 30. október næstkomandi. Það skal tekið fram að afkoma af aflögðum rekstri er að teknu tilliti til skatta á meðan hreinar virðisbreytingar eru það ekki.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Arion banki Valitor Primera WOW air United Silicon