Raunkostnaður við rekstur leikskóla í Reykjavík nemur tæpum 8 milljörðum króna á ári hverju en sá kostnaður hefur lækkað lítillega eftir hagræðingaraðgerðir í upphafi síðasta árs.

Í raun má segja að um 8.000 börn séu á framfæri borgarinnar með einum eða öðrum hætti. Þannig eru um 5.700 börn í borgarreknum leikskólum, um 900 börn í einkareknum leikskólum, um 800 börn hjá dagforeldrum og þá njóta um 600 börn svokallaðrar þjónustutryggingar.

Af þeim 5.700 börnum sem nú eru í borgarreknum leikskólum nemur kostnaðurinn við hvert barn tæpar 1,4 milljónir króna á ári eða um 125 þúsund krónum á mánuði á hvert barn að meðaltali (sé miðað við 11 mánuði á ári).

Algengast er að börn séu 4-8 klst. á dag í leikskóla. Sé horft til þess hóps greiða hjón aðeins 13% af raunkostnaði leikskóladvalar á meðan borgin niðurgreiðir 87%.

„Það er engin spurning að þetta kerfi er mjög dýrt,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi og formaður leikskólasviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við Viðskiptablaðið aðspurð um þessar tölur.

„Það er ágætt að tölurnar liggi fyrir þannig að almenningur sjái í raun í hvað útsvarsgreiðslur þeirra fara. Það var talsvert átak að fá þessar tölur fram á kjörtímabilinu og ég tel nauðsynlegt að auka kostnaðarvitund útsvarsgreiðenda enn frekar. Í raun mætti birta svona tölur á fleiri sviðum.“

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .