Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 1,09% í dag en viðskipti á hlutabréfamarkaði námu rúmlega 2,8 milljörðum króna. Hvert eitt og einasta félag hækkaði á markaði í dag en úrvalsvísitalan stóð í 1.679,27 stigum við lokun markaða. Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,05% og stendur því í 1.365,67 stigum, en viðskipti með skuldabréf námu rúmlega 4,3 milljörðum króna.

Eins og áður sagði hækkuðu bréf allra félaganna í Kauphöllinni en mest hækkuðu bréf Nýherja eða um 2,50% en velta með bréfin nam þó aðeins tæpum 32 milljónum. Næst mest hækkun var á bréfum fasteignafélagsins Regins en hækkunin nam 2,41%. Viðskipti með bréf fasteignafélagsins námu 409 milljónum og stóðu bréf þess  í 26,37 við lok dags.

Mest viðskipti voru með bréf fasteignafélagsins Reita en þau námu um 689 milljónum. Við lokun markaða stóðu bréf félagsins í 88,80 krónum og höfðu þá hækkað um 1,72%.