Í kjölfarið þess að Novator hefur tryggt sér Actavis  losnar um talsvert fjármagn út í hagkerfið en greiningaraðilar höfðu reiknað út að Novator þyrfti að greiða hluthöfum um 190 milljarða króna, tækist því að ná yfir markmiði sínu. Gera má ráð fyrir að hlutafjáreigendur Actavis, stórir sem smáir, finni fé sínu nýjan farveg og endurfjárfesti í hlutabréfum íslenskra sem erlendra félaga. Novator tilkynnti þann tíunda maí síðastliðinn að félagið hygðist gera yfirtökutilboð í Actavis. Síðan þá hefur Úrvalsvísitalan hækkað um 15%, en á sama tímabili í fyrra stóð hún nánast í stað, og lækkaði í raun lítillega. Það er því ljóst að viðskiptin í kringum Actavis hafa haft rík áhrif á íslenskan hlutabréfamarkað.

Að sögn Tryggva Þórs Herbertssonar, forstjóra Askar Capital, er stærstur hluti þess fjár sem er að koma út þessum viðskiptum skuldbundnar hlutabréfastöður, þannig að nokkrar fjárhæðir gætu farið í að greiða upp viðkomandi lán: "Innlendu og erlendu bankarnir munu þá væntanlega nota þær upphæðir til að gera upp við sína skuldunauta. Þannig að sú upphæð sem spýtist inn í hagkerfið verður í raun mun lægri en 190 milljarðar." Tryggvi bætir þó við að augljóst sé að talsverðir fjármunir muni losna inn á innlendan hlutabréfamarkað og setja þrýsting á Úrvalsvísitöluna. Það sé ekki síst vegna vísitölusjóðanna sem þurfa að selja hlutinn í Actavis og kaupa bréf í öðrum félögum, sem ýtir upp verðinu. Einnig eru ýmsir fjárfestar sem eru ekki háðir sömu skilyrðum og vísitölusjóðirnir sem munu vilja halda áfram í áhættufjárfestingum. Tryggvi sér fyrir sér nokkurn þrýsting á hlutabréfamarkaðinn til skamms tíma og aukningu lausafjárstöðu. Einnig muni gengi krónunnar styrkjast, en greiðslur til hluthafa Novators verða fjármagnaðar með erlendum lánum sem þarf að breyta yfir krónur: "Það mun sennilega gera útflutningsgreinum enn erfiðara um vik," segir Tryggvi Þór.


Úrvalsvísitalan fór yfir í fyrsta skipti yfir níu þúsund stigin í gær og ljóst þykir að mikilla auðsáhrifa gætir á íslenskum markaði þessa dagana. Jónas Gauti Friðþjófsson, sérfræðingur hjá Greiningu Glitnis, telur að hækkunin séu ekki óeðlileg: "Haldbærasta skýringin á hækkun undanfarinna daga er sú að peningarnir sem eru að losna við yfirtökuna á Actavis færast annað. Einnig eru félögin í Kauphöllinni flest hver vel rekin og áhugaverð og talsverðar væntingar eru til staðar um kröftugan innri vöxt en einnig yfirtökur." Jónas segir að sú mikla daglega hækkun sem hafi átt sér stað á undanförnum vikum muni ekki halda áfram til langs tíma, en þó sé ekki þar með sagt að lækkun séu í vændum: "Erfitt að greina á milli hversu stór hluti af þessu er flæðistengdur, það er fjármagn sem losnar við yfirtökuna á Actavis og leitar að nýjum farvegi, eða hvort um miklar og auknar væntingar að ræða. Eftir sem áður er hlutabréfamarkaðurinn óútreiknanleg skepna."

(Meira í Viðskiptablaðinu í dag )