Að meðaltali hefur hvert mál sem borist hefur til embættis umboðsmanns skuldara kostað 294.986 krónur. Frá því embættið tók til starfa þann 1. ágúst árið 2010 hafa því borist rúmlega 12 þúsund mál. Flest voru þau árið 2011, um 4.000 talsins, en fyrstu sex mánuði þessa árs var málafjöldinn rétt rúmlega eitt þúsund. Þar er ekki talin með almenn ráðgjöf, m.a. í formi viðtala og almennra leiðbeininga. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Að meðaltali er kostnaðurinn við sérhvert mál sem starfsmenn embættisins hafa tekið að sér tæplega 300 þúsund krónur. Hér fyrir neðan má sjá meðalkostnað við hvert mál á hverju ári en tölurnar koma frá umboðsmanni skuldara:

Árið 2010: 344.340 krónur.

Árið 2011: 209.779 krónur.

Árið 2012: 320.602 krónur.

Árið 2013: 359.777 krónur.

Árið 2014 (til 1. júní): 337.116 krónur.

Vegið meðaltal: 294.986 krónur.

Hlutverk umboðsmanns  skuldara er að gæta hagsmuna skuldara og veita þeim ýmiss konar ráðgjöf og aðstoð þegar við á. Meginverkefnið er að sinna greiðsluaðlögun einstaklinga en auk þess aðstoðar embættið einstaklinga við að leysa úr vanda sínum með vægari úrræðum, þegar við á. Embættið veitir fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna skiptakostnaðar og tekur við erindum og ábendingum skuldara um ágalla á lánastarfsemi.

Af rúmlega 12 þúsund málum embættisins eru um 5.000 greiðsluaðlögunarmál, um 3.500 ráðgjafarmál, um 3.500 erindi og um 300 umsóknir um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar. Þess má geta að á bakvið hvert mál eru oft á tíðum fleiri einstaklingar, fjölskyldumeðlimir eða aðrir sem málið snertir. Þá geta hjón og sambýlisfólk sótt saman um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika.

Í þeim samningum um greiðsluaðlögun sem embættið hefur haft milligöngu um, hefur verið samið um 20 milljarða kr. eftirgjöf af samningskröfum. Að meðaltali er samið um 87% eftirgjöf af samningskröfum, sem eru rúmlega 8 milljónir kr. á sérhvern samning. Þá er lokið afmáningu veðskulda upp á 855 milljónir kr. í 100 málum en afmáningin fer fram hjá sýslumönnum við lok greiðsluaðlögunarsamnings. Einungis hluti þeirra sem hafa fengið samning um greiðsluaðlögun eru fasteignaeigendur sem sótt geta um afmáningu. 744 samningar hafa nú ákvæði um afmáningu, þannig að búast má við að heildarupphæð afmáðra veðkrafna muni hækka mikið. Þá eru ótaldar skuldir sem einstaklingar kunna að hafa fengið niðurfelldar í kjölfar þess að það sótti sér ráðgjöf embættisins.

Það eru lánveitendur sem lögum samkvæmt standa straum af kostnaði við rekstur embættis umboðsmanns skuldara.