Fróðlegt er að velta fyrir sér í hvaða atvinnugreinar ungt fólk sem er að koma inn á vinnumarkaðinn sækir eftir að hafa lokið námi, segir í vefriti fjármálaráðuneytisins.

Það er einkennandi fyrir íslenskan vinnumarkað að flestir hafa unnið með skólagöngu en þegar fólk fer á þrítugsaldurinn heldur það til starfa í greinum sem hæfir menntun þeirra.

Í vefriti fjármálaráðuneytisins er kannað lauslega hvað gerst hefur frá árinu 2000 til 2005 hjá fólki sem er 30 ára og yngra.

?Á þessum fimm árum hefur tala karla innan við þrítugt á vinnumarkaði ekki breyst. Fækkað hefur hjá þeim sem yngri eru en tvítugir um 615 sem er 9% fækkun en fjölgað um það bil um sömu tölu hjá hópnum milli tvítugs og þrítugs. Hjá ungum konum hefur orðið fjölgun um 870 en það er 4% fjölgun í öllum hópnum," segir í vefritinu.

Val nýrra þátttakenda í atvinnulífinu fer eftir menntun, kyni og vitaskuld eftir því í hvaða greinum er boðið upp á ný störf.

?Þannig er ekki við því að búast að mikill fjöldi ungs fólks leiti í greinar eins og fiskveiðar, þar sem starfandi hefur alls fækkað um 1.760 manns eða 28%. Sú er reyndar raunin enda fækkaði körlum undir þrítugu um 450 manns á þessu tímabili sem er um 40% fækkun. Ungum körlum hefur samtals fjölgað yfir 100 í 12 greinum alls og hið sama gildir um ungar konur," segir í vefritinu.

Flestir karlmenn undir 30 ára starfa við almenn byggingarstarfsemi. ?Störfum í mannvirkjagerð í heild hefur fjölgað um 28% á undanförnum 5 árum en fjölgun hjá ungum körlum er hlutfallslega minni en það. Stafar það ekki hvað síst af því að töluverður hluti aðflutts vinnuafls vegna uppsveiflunnar í byggingarstarfsemi er eldri en þrítugur. Þróunin í mannvirkjagerð er þess vegna ekki dæmigerð um atvinnuval þeirra sem hafa alið sinn aldur hér á landi," segir í vefritinu.

Þar segir að næst fjölmennasta atvinnugrein ungra karlmanna er vinna í stórmörkuðum og matvöruverslunum og þar hefur fjölgað um 500 manns sem er fjórðungs aukning. Árið 2000 voru fiskveiðar í öðru sæti en í fyrra hafði þessi grein fallið niður í fimmta sæti.

?Þriðja fjölmennasta greinin er matsölu- og skemmtistaðir þar sem rúmlega þúsund vinna og hefur heldur fækkað," segir í vefritinu.

?Ungum karlmönnum hefur fjölgað um tæplega 200 í félagsþjónustu án dvalar (t.d. leikskólar og félagsmiðstöðvar), í sérvöruverslunum ýmiss konar og litlu minna í grunnskólunum. Allt eru þetta atvinnugreinar þar sem fjöldi ungra karla tvöfaldast og rúmlega það," segir í vefritinu.

Þar segir að atvinnuþátttaka ungra kvenna er með nokkuð öðrum hætti en hjá körlum.

?Fjölmennasta atvinnugrein ungra kvenna er félagsþjónusta án dvalar og þar hefur fjölgunin einnig orðið mest, yfir 400 konur sem er fjórðungur. Næst fjölmennust er vinna í stórmörkuðum og matvöruverslunum, eins og hjá körlunum, en þar hefur konum ekki fjölgað mikið. Matsölu- og skemmtistaðir eru einnig í þriðja sæti hjá konunum. Ungum konum hefur fjölgað næst mest í grunnskólum, um 300 sem er 46% aukning," segir í vefritinu.