Talsmenn Bandaríkjanna og Kanada hvetja ríki Evrópusambandsins eindregið til að beita frekari aðgerðum til að örva hagkerfið á evrusvæðinu. Ef ekkert verði að gert geti evrusvæðið staðið í vegi fyrir mikilvægum alþjóðlegum efnahagsbata, nú þegar talsverð spenna og óvissa ríkir á alþjóðasviðinu.

Samkvæmt frétt Financial Times lýsti Jack Lew, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, áhyggjum sínum af efnagsástandinu í Evrópu, á fundi G20 ríkjanna í morgun. Hann sagði nauðsynlegt að hvetja til eftirspurnar í evruríkjunum og í því tilliti þyrftu ríkin að vera samstíga.

Talsverðar deilur hafa verið uppi milli stærstu ríkja Evrópusambandsins hvernig best sé að örva hagkerfið. Forsvarsmenn Bandaríkjanna hafa verið óhræddir að gagnrýna þær aðferðir sem beitt hefur verið. Þeir telja að lönd eins Þýskaland, sem búa yfir miklum viðskiptaafgangi, eigi að fjárfesta meira og lækka skatta til að koma efnahagskerfinu af stað.

Joe Oliver, fjármálaráðherra Kanada, tók undir með Jack Lew í morgun og sagði nayðsynlegt fyrir stjórnvöld evruríkjanna að stíga upp og grípa til alvöru aðgerða ef ekki ætti illa að fara.