Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, telur rétt að veita Íbúðalánasjóði (ÍLS) þær heimildir sem hann þarf til að geta boðið viðskiptavinum sínum sömu leiðir og Landsbankinn kynnti í síðustu viku. Hann sagði mikilvægt að ríkissjóður, í þessu tilviki ÍLS, verði ekki eftirbátur viðskiptabankanna. Því þurfi að veita Íbúðalánasjóði heimildirnar á þessum síðustu dögum þingsins.

Helgi Hjörvar
Helgi Hjörvar
© BIG (VB MYND/BIG)
Gunnar Bragi hvatti einnig hina viðskiptabankana til að fara sömu leið og Landsbankinn. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, tók í sama streng og sagði fulla ástæðu til að hvetja önnur fjármálafyrirtæki til að bjóða sömu leiðir. Hann lagði áherslu á að gæta þurfi jafnræðis meðal skuldara í landinu.

Helgi sagði Íbúðalánasjóð hljóta að þurfa að bjóða sömu úrræði og ríkisbankinn Landsbankinn. Sjóðurinn eigi að bjóða viðskiptavinum sínum að minnsta kosti jafn góð kjör og viðskiptabankarnir. Því þurfi að skoða þær heimildir sem Íbúðalánasjóður hefur í þessum efnum.

Lagabreytingu þarf til

Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri ÍLS, sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að lagabreytingu þurfi til þess að sjóðurinn geti boðið viðskiptavinum sínum svipaða niðurfærslu lána og Landsbankinn tilkynnti um. Þar vísar Sigurður í lög um að sjóðnum beri að miða við annað hvort fasteignamat eða markaðsvirði, þá tölu sem er hærri hverju sinni. Samkvæmt nýrri leið Landsbankans verður miðað við fasteignamat á eignum undir 30 milljónum en ekki verðmat.