Hópur lögfræðinga og tölvunarfræðinga leggja nú mikinn þrýsting á Hillary Clinton að draga kosningaúrslitin í nokkrum lykilríkjum Bandaríkjanna í forsetakosningunum fyrr í mánuðinum í efa.

Hvetja þeir Hillary og kosningabaráttuhóp hennar til að leggja fram formlega kröfu um endurtalningu og rannsókn á kosningaúrslitunum í fylkjunum Michican, Wisconsin og Pennsylvaníu áður en fresturinn til þess rennur út á næstu dögum, eða föstudag í Wisconsin, mánudag í Pennsylvaníu og miðvikudaginn eftir viku í Michigan.

Úrslit sögð öðruvísi eftir því hvort kosningavélar notaðar eða ekki

Ef úrslitin færu öðruvísi eftir endurtalningu í Wisconsin og Pennsylvaníu en opinberu úrslitin auk þess sem hún myndi sigra í Michigan sem ekki enn hafa gefið út opinber úrslit vegna þess hve mjótt er á mununum myndi forsetaembættið verða hennar.

Trump sigraði Pennsylvaníu með 68 þúsund atkvæðum umfram Hillary en athygli hefur verið vakin á því að í þeim sýslum Wisconsin þar sem notaðar voru rafrænar kosningavélar var sigur Trump hlutfallslega meira áberandi en þar sem notaðir voru hefðbundnir kjörseðlar.

Þessum ábendingum David Greenwald , blaðamanns hjá blaðinu Oregonian hefur þó verið svarað af Nate Silver sem er sérfræðingur í skoðanakönnunum og stofnandi FiveThirtyEight sem hefur sagt að mismunurinn leiðréttist út þegar tekið er tillit til kynþátta- og menntunarmunar milli sýslanna.

Hafa áhyggjur af afskiptum Rússa

Samt sem áður hafa margir sérfræðingar í tölvuöryggi, vörnum og kosningum skrifað undir opið bréf til leiðtoga þingsins um að þeir hafi miklar áhyggjur af fyrri fréttum af erlendum afskiptum af kosningunum. Hafa nokkrir þingmenn lýst yfir vilja til að farið yrði ofan í saumana á afskiptum Rússa af kosningunum.

Í síðasta mánuði lýstu helstu yfirmenn þjóðaröryggismála í landinu því yfir að þeir væru vissir um að innbrotið í vefpósta demókrataflokksins og fleiri sem Wikileaks lak væri stýrt af rússnesku ríkisstjórninni.

„Sum fylki hafa nýlega séð að kerfi tengd kosningunum hafa verið undir eftirliti, sem í flestum tilvikum var stýrt frá netþjónum í eigu rússnesks fyrirtækis,“ segir í yfirlýsingunni. „Samt sem áður erum við ekki í stöðu núna til að tengja rússnesku ríkisstjórnina við aðgerðirnar.“