Stjórnvöld hafa nýverið tilkynnt um að tryggja aukið fjármagn til innleiðingar nýrra lyfja á þessu ári. Frumtök, samtök frumlyfjaframleiðenda, hafa ítrekað bent á að í óefni stefndi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

„Sérstakt fagnaðarefni er að heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsmálaráðherra ætli að setjast yfir það saman að tryggja aukið fjármagn til innleiðingar nýrra lyfja á þessu ári. Þar með er tekið undir þann málflutning okkar að fjárlagaliðurinn sé í raun ekki í samræmi við þann raunveruleika sem blasir við í heilbrigðiskerfinu,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda.

„Fullt tilefni er til ríflegrar aukningar enda höfum við um árabil verið eftirbátar nágrannalanda okkar þegar að því kemur að taka í notkun ný lyf,“ bætir hann við.