Leiðtogar bresku samtaka iðnaðarins (CBI), hins alþjóðlega viðskiptaráðs (ICC) og félags framleiðenda  (EEF) hafa ritað Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, opið bréf þar sem hvatt er til þess að stigið verði varlega til jarðar í útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

„Ríkisstjórnin verður að gæta þess að samningurinn [um útgöngu úr ESB] tryggi stöðugleika, og bætt lífskjör,“ stendur í bréfinu. Undirskriftaraðilar bréfsins segjast virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um útgönguna, en að það skipti miklu máli fyrir breskan vinnumarkað og fjárfestingar á hvaða forsendum útgangan eigi sér stað.

May hefur ítrekað undanfarið að aðild Bretlands að sameiginlegum markaði Evrópusambandsins verði fórnað ef Bretland missir stjórn á eigin innflytjendastefnu. En samkvæmt bréfinu munu tollar festast við 90% breskra vara miðað við reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) skyldi Bretland missa aðgang að sameiginlegum markaði sambandsins. Það myndi síðan stórauka kostnað útflytjenda, innflytjenda og birgja.

Óvissan um hvernig útgöngunni verði háttað hefur átt stóran þátt í að keyra niður gengi pundsins undanfarin misseri, og ljóst er að áhyggjur breskra fyrirtækja um forsendur útgöngunnar liggja að baki bréfinu. Þrýstihópurinn telur því mikilvægt að bresk stjórnvöld tryggi aðgang að sameiginlegum markaði sambandsins samhliða útgöngu. Annars gæti útgangan stórskaðað breska hagkerfið og viðskiptahagsmuni annarra aðila með varanlegum hætti.