Í tilkynningu frá Vodafone eru notendur heimasíðu félagsins hvattir til að breyta lykilorðum sínum annars staðar á netinu ef þau eru þau sömu og á vefsvæði Vodafone. Er þetta gert vegna tölvuárásar sem var gerð á vefsíðu félagsins í nótt. Svo virðist sem tölvuhakkarinn sem gerði árásina hafi komist yfir upplýsingar um notendur og þurfa þeir því að grípa til varúðarráðstafana svo að hakkarinn nái ekki að opna leið að öðrum svæðum sem viðskiptavinir Vodafone nota.

„Vodafone á Íslandi beinir því til allra sem stofnað hafa aðgang að Vodafone.is og nota þar sama lykilorð og á öðrum stöðum á netinu, t.d. tölvupósti og samfélagsmiðlum, að breyta lykilorðum sínum. Tilgangurinn er að tryggja að upplýsingar sem erlendur tölvuhakkari hefur komist yfir opni ekki leið að þessum svæðum,“ segir í tilkynningunni frá Vodafone.