Á rafrænum fundi Nýsköpunarnefndar Félags kvenna í atvinnulífinu sem fram fór nýlega benti Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og formaður nefndarinnar, á að einungis 1,4% af fjármögnun fjárfestingarsjóða færu til fyrirtækja sem stofnuð eru eingöngu af konum en 88% fjármagnsins til nýsköpunarfyrirtækja sem eingöngu eru stofnuð af körlum. Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, sem er í ítarlegu viðtali í bókinni 300 stærstu sem kom nýlega út, segir þetta sýna svart á hvítu að svigrúm sé til að bæta þetta, en hún finni þó fyrir því að það sé mikil meðvitund um það í samfélaginu og innan sprotageirans að efla þurfi þátt kvenna í tækni og nýsköpun.

„Það skiptir öllu máli að við séum með fjölbreytt teymi í sprotaumhverfinu, rétt eins og annars staðar í atvinnulífinu. Það hafa verið alls konar átaksverkefni í gangi undanfarinn áratug sem eiga einmitt að stuðla að aukinni þátttöku kvenna í nýsköpun og það hefur náðst ágætis árangur. Í okkar starfi leggjum við mikla áherslu á að gera konur sem hafa náð miklum árangri á þessu sviði sýnilegar, því það getur hvatt aðrar konur til að taka þátt í sprotaverkefnum. Við eigum mjög mikið af frábærum kvenfyrirmyndum í sprotaumhverfinu og ég tel að það skipti höfuðmáli að draga þær fram," segir hún og nefnir sem dæmi átak sem Icelandic Startups fór í til að jafna kynjahlutfall þátttakenda í Gullegginu.

„Fyrir nokkrum árum síðan voru kynjahlutföll þátttakenda í Gullegginu yfirleitt um 70% karlar og 30% konur. Með sérstökum átaksverkefnum þar sem við kölluðum eftir umsóknum frá konum í keppnina og með því að hafa það í huga að gæta þess að hafa jafna kynjaskiptingu framsögumanna á öllum okkar viðburðum, t.d. í pallborðsumræðum, náðum við að jafna kynjahlutfall þátttakenda í Gullegginu þannig að í dag er það enn nánast jafnt. Það skilar árangri að hafa þetta alltaf í huga en við þurfum að gæta þess áfram og sofna ekki á verðinum."

Salóme segist geta greint mun á þeim hugmyndum sem konur séu í forsvari fyrir og þeim sem karlmenn séu í forsvari fyrir. „Í ferðaþjónustulausnum hallar á karla, í lausnum sem snúa að sjávarútvegi og landbúnaði hefur hlutfallið verið nokkuð jafnt. Hins vegar þegar lausnirnar eru farnar að byggja á hugbúnaðarþróun eða dýpri tækni, líkt og í Startup Supernova sem fór fram síðastliðið sumar, var hlutfall kvenna meðal þátttakenda allt of lágt. Það hallar því enn verulega á konur í tækni og er eitthvað sem við þurfum nauðsynlega að bæta úr til að fara ekki á mis við öll þau verðmæti sem fjölbreytni felur í sér. Það skiptir til að mynda höfuðmáli að vel takist áfram til við að efla þáttöku kvenna í tækninámi. Kynjahlutföllin eru því almennt mjög breytileg eftir eðli verkefnanna en heilt yfir tel ég að við séum á réttri leið."

Nánar er rætt við Salóme í bókinni 300 stærstu sem kom út nýlega. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .