Eignarhaldsfélagið Hvetjandi hf. hefur keypt 25% af hlutafé Símaversins á Ísafirði að því er kemur fram í frétt Bæjarins besta á Ísafirði.

Þar kemur fram að Símaverið hefur verið í örum vexti að undanförnu en fyrirtækið var stofnað í vor og sérhæfir sig í svar- og úthringiþjónustu. Hannes Hrafn Haraldsson er framkvæmdastjóri Símaversins og 8 starfsmenn í 7,5 stöðugildum starfa hjá Símaverinu.

Hlutabréfakaupin eru liður Hvetjanda í að styrkja nýsköpunarverkefni  vestra segir í frétt Bæjarins besta. Tilgangur félagsins sem er í eigu Ísafjarðarbæjar, Byggðastofnunar, Súðavíkurhrepps, Sparisjóðs Vestfirðinga og Lífeyrissjóðs Vestfirðinga er að taka þátt í stofnun og starfsemi annarra félaga sem rekin eru á grundvelli arðssemissjónarmiða, fela í sér nýmæli í atvinnulífi og/eða eru mikilvægur þáttur í uppbyggingu atvinnulífs á norðanverðum Vestfjörðum.