Segolene Royal, umhverfisráðherra Frakklands, hvetur fólk til að hætta allri neyslu á Nutella súkkulaðikremi vegna þess að notast sé við pálmaolíu í framleiðslu þess með tilheyrandi náttúruspjöllum.

Segir Royal að þetta vinsæla súkkulaði- og hnetukrem eigi þátt sinn í eyðingu skóga vegna þess að olíupálmar séu að spretta upp í stað trjáa.

Ítalski súkkulaðiframleiðandinn Ferrero, sem á Nutella, segist hafa skuldbundið sig til að framleiða pálmaolíu á sem ábyrgastan hátt. Franskir þingmenn reyndu án árangurs að setja 300 prósent skatt á pálmaolíu árið 2011. Sögðu þeir að olían væri hættulega fitandi og að ræktun hennar væri skaðleg umhverfinu.

Umhverfisráðherrann Royal sagði í vikunni að framleiða ætti Nutella með öðrum leiðum. Í samtali við frönsku sjónvarpsstöðina Canal+ hvatti hún fólk til að sniðganga þessa vinsælu vöru og benti meðal annars á að framleiðsla hennar leiddi til hlýnunar jarðar.

Nutella er afar vinsælt álegg á brauð um allan heim og er auk þess notað í ýmsar kökur.