Eins og áður hefur verið greint frá hefur nokkur orðrómur verið um það í Bandaríkjunum í vikunni að stjórnvöld þar í landi neyðist til að þjóðnýta fleiri banka og fjármálafyrirtæki og hefur það orðið til þess að fjárfestar hafa haldið að sér höndum og jafnvel reynt að losa sig við hlutabréf í bönkunum.

Þetta hefur meira að segja smitað út frá sér til Evrópu þar sem fjárfestar reyndu markvisst að losa sig við hlutabréf í fjármálafyrirtækjum í gær.

Ríkisstjórn Barack Obama, forseta Bandaríkjanna lagði því ofuráherslu á það í gær að ekki stæði til að þjóðnýta banka og sagði Robert Gibbs, talsmaður Hvíta hússins að forsetinn teldi að rekstur banka og fjármálafyrirtækja væri betur komið í höndum einkaaðila en yfirvalda.

Hann sagði það síðasta kost ríkisstjórnarinnar að þjóðnýta bankana og ef svo ólíklega vildi til að það yrði gert yrðu þeir seldir aftur við fyrsta tækifæri.

Eftir að Gibbs lét þessi ummæli falla fóru hlutabréf á Wall Street að hækka en allir markaðir höfðu verið rauðglóandi fram eftir degi. Við lokun markaða voru hlutabréfavísitölur nálægt því að vera á pari.

Aðspurður hvort ríkisstjórn Obama myndi aldrei þjóðnýta banka sagði Gibbs: „Ég tók það nokkuð skýrt fram að þetta er það kerfi sem hefur verið við lýði og þannig verður það áfram.“