Auglýsingastofan Hvíta húsið hefur keypt 10% hlut í bresku auglýsingastofunni Loewy. Kaupverðið er um 1 milljón punda eða 120 milljónir króna. Í kjölfar kaupanna fær Hvíta húsið einn stjórnarmann í félaginu.

Loewy er samkvæmt fréttatilkynningu ein af 20 stærstu auglýsingastofum Bretlands. Hvíta húsið gerði fyrr í þessum mánuði samstarfssamning við Loewy um markaðssókn í Evrópu, eftir að rætt hafði verið við á annan tug auglýsingastofa í Lundúnum. Tilgangur samningsins var ekki síst sá, að styðja við áframhaldandi sókn íslenskra fyrirtækja erlendis.

Á meðal viðskiptavina Hvíta hússins eru Baugur og Íslandsbanki.

Magnús Loftsson stjórnarformaður Hvíta hússins segir í samtali við Viðskiptablaðið að með kaupunum sé verið að staðfesta enn frekar samstarf félaganna og kaupin séu auk þess gerð á heppilegum tímapunkti fyrir báða aðila. "Loewy er að stækka mikið og við hjálpum þeim að takast á við þau verkefni með kaupunum. Þeir hafa ekki verið að leita sér að fjárfestum, sem slíkum, heldur frekar að samstarfsaðilum. Frá okkar sjónarhóli er tilgangurinn ekki síst sá að tryggja að þjónustan sem Loewy veitir okkur samkvæmt samstarfssamningnum sé fyrsta flokks."

Breskir fjölmiðlar hafa túlkað kaupin sem enn eina innrás fjárfesta frá Íslandi. Magnús segir það hins vegar ekki endilega á stefnuskránni að eignast félagið. "Þetta býður hins vegar viðskiptavinum okkar upp á ýmsa möguleika -- ekki bara þeim sem eru í útrás heldur einnig þeim sem starfa hér heima. Sem dæmi um það er aukinn aðgangur að alls kyns markaðsrannsóknum, til dæmis í sambandi við kynningarstarf, hönnun á umbúðum og svo framvegis," segir Magnús.

Magnús segist hafa skynjað það í þessum viðskiptum að það hafi hjálpað Hvíta húsinu að vera frá Íslandi; talsverður spenningur sé fyrir fjárfestum héðan í Bretlandi.

Magnús segir að herferð Hvíta hússins fyrir Mastercard fyrir nokkrum árum hafi markað upphafið að því að fyrirtækið reyndi fyrir sér á erlendum vettvangi. Seinna hafi verið ráðist í áþekkt verkefni fyrir Actavis.

Hins vegar segir hann ekki vænlegt að hasla sér völl á þessum markaði í Bretlandi með því að stofna stofu frá grunni. Samstarf eða eignatengsl við rótgróna og þaulreynda breska stofu sé mun skynsamlegri kostur.

Hluthafar Hvíta hússins eru tíu talsins, allt starfsmenn hjá fyrirtækinu. Magnús segir að kaupin hafi verið fjármögnuð með hlutafjáraukningu, eiginfjáraukningu og lánum. "Þetta var alls ekki óyfirstíganlegt og mikill samhugur meðal starfsfólksins að ráðast í þetta," segir Magnús.

Loewy hefur sett sér þau markmið að tekjur ársins verði um 1,2 milljarðar króna og starfsmenn um 100. Í breska blaðinu Independent er hins vegar haft eftir forstjóranum, Charlie Hoult, að hann vonist til þess að ná mun betri árangri.

Loewy sótti fram á síðasta ári með því að kaupa þrjár auglýsingastofur fyrir fé frá nýjum stjórnarformanni sínum, Luke Johnson. Johnson leiddi hóp fjárfesta sem keyptu fyrirtækið í mars í fyrra. Hann er umsvifamikill athafnamaður og meðal annars stjórnarformaður sjónvarpsstöðvarinnar Channel 4.

Þess má geta að Frakkinn Raymond Loewy, sem stofnaði auglýsingastofuna árið 1929, er almennt álitinn einn af áhrifamestu hönnuðum 20. aldar. Meðal höfundarverka hans eru Coca-Cola flaskan, Lucky Strike sígarettupakkinn, Shell-merkið og bæði rútur og merki Grayhound.