Hjá Fasteignasölunni Hól í Reykjavík er þessa dagana verið að ganga frá sölu á Hvíta Húsinu á Selfossi. Það eru fjárfestar í Reykjavík sem kaupa en seljendur eru feðgarnir Bragi Sverrisson og Sverrir Andrésson. Þetta kemur fram í Sunnlenska fréttablaðinu.

Ingi Björn Albertsson fasteignasali kvaðst í samtali við Sunnlenska ekki geta upplýst hverjir kaupendurnir eru en taldi aðspurður ekki líklegt að þeir hinir sömu myndu sjálfir reka skemmtistað í húsinu eins og verið hefur. Hvíta Húsið stendur við Hrísmýri á Selfossi og var byggt til að hýsa þar skemmtanahald og veislur auk þess sem fornbílasafn var um tíma rekið í hluta hússins.