Auglýsingastofan Hvíta Húsið fékk flest verðlaun þegar hin árlega afhending íslensku auglýsingaverðlaunanna, Lúðurinn, fór fram í gær. Hvíta Húsið fékk fimm lúðra. Íslenska auglýsingastofan fékk fjóra og Fíton tvo. Auglýsingastofurnar Jónsson & Le´macks, Leynivopnið, Wonwei og Tjarnagatan hlutu einn lúður hver.

Alls eru veitt verðlaun í 15 flokkum. „Fyrir bestu auglýsingaherferðina sem eru jafnframt eftirsóttustu verðlaunin hlaut Hvíta húsið fyrir herferðina „Tengjum saman jólin“ sem unnin var fyrir Vodafone. Í herferðinni fékk auglýsingastofan heilt bæjarfélag á Drangsnesi í lið með sér til að sýna notkunarmöguleika snjalltækja og hvernig tæknin tengir fjölskyldur saman um jólin,“ segir í tilkynningu um afhendingu verðlaunanna í gærkvöldi.

„Fíton hlaut Áruna, verðlaun sem veitt eru fyrir framúrskarandi árangur auglýsingaherferðarinnar „Nýjar áherslur Domino´s 2012“ sem var unnið fyrir Pizza, pizza. Í herferðinni var t.d. nýtt snjallsímaforrit (app) Dominos sett í loftið sem vakið hefur mikla lukku.

Í flokknum Ásýnd fyrirtækis eða vörumerkis bar Hvíta húsið sigur úr býtum með ásýnd Advania en markmið þeirra var að gera áberandi, lifandi og nýstárlegt útlit fyrir nýtt alþjóðlegt upplýsingatæknifyrirtæki. Hvíta húsið fékk einnig verðlaun í flokknum Umhverfisauglýsingar fyrir merkingar þeirra í verslun Advania sem bar heitið „Með orðum íslenskra meistara“ og fyrir markpóstinn „Do not open“ sem var unninn fyrir Isavia. Í markpóstinum var fagfólki í flugumsjón á erlendri sýningu ráðlagt að opna ekki litla hylkið í markpóstinum nálægt vél flugvélar þar sem í því var gosaska.

Jónsson & Le´macks bar sigur úr býtum fyrir kvikmynduðu auglýsinguna „Lifandi tónlist“ sem þeir unnu fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands en markmið var að tengja við yngra fólk og vekja áhuga þeirra á klassískri tónlist. Í flokknum Veggspjöld og skilti hlaut auglýsingastofan Leynivopnið verðlaun fyrir auglýsinguna „Float“ sem þeir unnu fyrir Float.

Fíton átti bestu auglýsinguna í flokknum almannaheillaauglýsingar fyrir ljósvakamiðla. Auglýsingin var gerð fyrir Á allra vörum en yfirskrift hennar var „Og það varst þú“ en tilgangur auglýsingarinnar var að fá landsmenn til að taka þátt í landssöfnun og styrkja börn með ólæknandi sjúkdóma. Að auki hlaut Hvíta húsið verðlaun í flokknum almannaheillaauglýsingar aðrir miðlar fyrir auglýsinguna „Gamlir brjósthaldarar lifa áfram“ sem unnin var fyrir Sjóvá. Tilgangurinn var vekja athygli á brjósthaldarasöfnun RKÍ og Kvennahlaups Sjóvá fyrir bágstaddar konur erlendis.

Íslenska auglýsingastofan hlaut fern verðlaun þetta árið. Það var fyrir prentauglýsinguna „Veistu hvað þú átt?“ fyrir Vörð en þar var tekið allt innbú fjölskyldu og fært í ljósmyndaver þar sem tekin var mynd. Einnig vann auglýsingastofan verðlaun fyrir útvarpsauglýsinguna „Bættu smá Denver í líf þitt“ sem unnið var fyrir Icelandair. Íslenska vann til verðlauna fyrir „Eldhús – Litla matarhúsið“ sem unnið var fyrir Íslandsstofu bæði í flokknum Viðburðir og í flokknum Stafrænir auglýsingar – Samfélagsmiðlar. Þar var verið að kynna íslenskar matarhefðir með því að lítið rautt hús var keyrt um Ísland og ferðamönnum boðið í mat.

Auglýsingastofan Wonwei vann verðlaun fyrir „Upplifðu Iceland Airwaves með Símanum“ í flokknum Stafrænar auglýsingar – hreyfimyndir sem unnið var fyrir Símann og Tjarnargatan bar sigur úr býtum í flokknum Stafrænar auglýsingar – vefauglýsingar fyrir auglýsinguna „Þjóðhátíð í Eyjum – vitaminwater“ sem þeir unnu fyrir Vífilfell. Auglýsingin var sett upp á skemmtilegan máta sem frétt þess efnis að Árni Johnsen og dýraverndunarsinnar krefjist þess að þjóðhátíð í Vestmannaeyjum yrði blásin af til að hlífa lundanum.“