Ruslpóstur er svo algengur í Hvíta-Rússlandi að næstum 30% allra netfanga eru blokkuð af ruslpóstvarnarforritum. Þetta kemur fram á BBC .

Lönd í Austur-Evrópu raða sér efst á lista landa með hæsta hlutfall af netföngum sem eru á svörtum lista, samkvæmt upplýsingum frá netöryggisfyrirtækinu Cloudmark.

Cloudmark segir Rússland hafa í gegnum tíðina verið vinsælt hjá þeim sem dreifa ruslpósti en mesti ruslpósturinn á uppruna sinn í Bandaríkjunum. Nú hefur Hvíta-Rússland hins vegar tekið við ruslinu þar sem stjórnvöld í Rússlandi hafi gripið til aðgerða gegn ruslpósti með betri vörnum.

Hvíta-Rússland (27,4%), Rúmenía (22,3%) og Rússland (3%) verma þrjú efstu sætin yfir ip-tölur sem dreifa ruslpósti, samkvæmt Andrew Conway,  rannsakanda hjá Cloudmark.

Og ástandið hefur aldrei verið verra í Hvíta-Rússlandi. Paul Ducklin, hjá öryggisfyrirtækinu Sophos, segir að árið í ár sé það versta hingað til í landinu. Hvíta-Rússland er einnig að ná Bandaríkjunum þegar kemur að uppruna ruslpósts.