Forsýning nýrrar kvikmyndar um Hvolpasveitina í kvikmyndahúsum og á streymisveitunni Paramount+ markar upphafið á metnaðarfullum áformum ViacomCBS um að skjóta sjónvarpsrisanum Disney, og streymisveitu þess Disney+, ref fyrir rass á streymisveitumarkaði. Reuters greinir frá.

Umrædd kvikmynd, sem frumsýnd er víða um heim í dag og þar á meðal á Íslandi, er byggð á hinum geysivinsælu sjónvarpsþáttum um Hvolpasveitina. Foreldrar unga barna eru vafalaust margir hverjir kunnugir ævintýrum Hvolpasveitarinnar, sem hjálpa íbúum Ævintýraflóa við lausn á hinum ýmsu vandamálum, stórum sem smáum.

Til að styðja við útgáfu myndarinnar hefur mikið púður verið lagt í markaðsstarf henni tengt. Þar á meðal eru 1.800 auglýsingar sem dreift er um mismunandi miðla, t.d. barnarásina Nickelodeon. Auk þess hefur verið gengið frá samstarfi við nærri 200 fyrirtæki, líkt og morgunkornsframleiðandann Kellogg's og Best Western hótelkeðjuna. Felur samstarfið í sér dreifingu á Hvolpasveitavarningi sem fylgir prufuáskrift af Paramount+.

Þá ætlar ViacomCBS einnig að setja aukið púður í vinsælt barnaefni, líkt og Svamp Sveinsson, iCarly og Teenage Mutant Ninja Turtles, sem fyrirtækið er með á sínum snærum, þannig að barnaefni fyrirtækisins geti laðað að nýja streymisáskrifendur. Vonast ViacomCBS til þess að verða samkeppnisaðili sem Disney þurfi að taka alvarlega.