Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti í kvöld Íslensku menntaverðlaunin í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ. Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum, þ.e. í flokki skóla, flokki kennara, flokki ungra kennara og í flokki námsefnishöfunda.

Verðlaun í flokki skóla hlaut Hvolsskóli á Hvolsvelli. Í umsögn um skólann segir að öflugt og farsælt starf hafi verið unnið í Hvolsskóla um langt skeið.Almennt sé viðhorf foreldra jákvætt til innra starfs skólans og samskipta við kennara. Hefðbundnu bekkjarkerfi hafi verið vikið fyrir sveigjanlegum námshópum, þar sem leitast er við að hver og einn fái þá þjónustu sem honum hæfir. Ljóst sé að í Hvolsskóla sé farsælt og framsækið starf.

Verðlaun í flokki kennara hlaut Arnheiður Borg. Arnheiður lauk kennaraprófi árið 1965 og hefur síðan þá starfað við Langholtsskóla, Breiðholtsskóla, Kópavogsskóla og Flataskóla. Hún lauk sérkennaraprófi árið 1989. Í umsögn forsetaembættisins segir að Arnheiður hafi með áherslu á jákvæða lífssýn og stuðningi við þá sem eiga í erfiðleikum með skólanámið stuðlað að farsæld nemenda sinna. Hún hafi samið efni til lestrarkennslu og sé einn þeirra kennara sem gera hvern skóla betri.

Verðlaun í flokki ungra kennara hlaut Halldór B. Ívarsson. Halldór lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1998 og námi til kennsluréttinda frá Háskólanum á Akureyri árið 2003. Halldór hefur kennt við Varmárskóla í Mosfellsbæ frá árinu 1999. Í umsögn um Halldór segir m.a. „Halldór er hugkvæmur kennari. Hann nýtir upplýsingatæknina sérlega vel við kennslu sína og hefur útbúið af kunnáttu og vandvirkni námsvefi þar sem er að finna gagnvirkt efni sem eflir skilning nemenda á viðfangsefnum þeirra. Þessa vefi geta aðrir skólar nýtt sér. Það sýnir að Halldór er fús til að deilda verkum sínum með öðrum og sýna þannig í verki sameiginlega ábyrgð kennara á að efla skólastarf í þágu nemenda.“

Í flokki höfunda námsefnis fékk verðlaunin Pétur Hafþór Jónsson. Hann brautskráðist frá Tónvinnsluskólanum í Reykjavík sem tónmenntakennari árið 1977 og lauk prófi í tónvísindum frá háskólanum í Álaborg árið 1996. Pétur hefur kennt við Austurbæjarskóla frá 1976, að undanskildum þremur árum þegar hann var við framhaldsnám í Álaborg. Að mati dómnefndar er bókin Hljóðspor eftir Pétur, ásamt fylgiefni, mikilvægt framlag til aukinnar fjölbreytni í námsefni til tónmenntarkennslu í grunnskólum.