Þrátt fyrir að aðeins hafi dregið úr nýgengi örorku fjölgar örorkulífeyrisþegum hratt og hlutfallslega hraðar en sem nemur mannfjöldaaukningu. Þannig hefur fjöldi örorkuþega í hlutfalli við fjölda fólks á vinnualdri aukist um sem nemur 1,5 prósentustigum frá árinu 2010 en hlutfallið stendur nú í um 8,4%.

Á þetta benti Halldór Benjamín Þorbergsson á fundi Samtaka Atvinnulífsins en rétt rúmlega 1.500 manns voru úrskurðaðir með 75% örorkumat eða hærra á árinu 2017. Til samanburðar er náttúruleg fjölgun landsmanna þ.e. fæddir umfram dána á landinu um 2.000 á ári. Árið 2016 var nýgengi 75% örorkumats tæplega 1.800 einstaklingar. Tveir stórir orsakavaldar nýgengis örorku eru andleg veikindi annars vegar og stoðkerfisvandamál hins vegar.

Þróun fjölda örorkulífeyrisþega.
Þróun fjölda örorkulífeyrisþega.
© Skjáskot (Skjáskot)

„Þessi fjöldi er ekki ásættanlegur og það er stígandi í þessu yfir lengri tíma. Það sér það hver maður að þegar 8,4% af fólki á vinnualdri hefur verið úrskurðað með 75% örorku eða meira, þá er augljóslega hvorki um ásættanlega né sjálfbæra þróun til framtíðar að ræða.

Við sem samfélag getum ekki leyft málum að þróast áfram á þennan veg. Við þurfum að líta í kringum okkur og við þurfum að líta í spegil. Við þurfum að uppræta orsakirnar á bak við þessa þróun, sem eru margþættar.“ segir Halldór Benjamín í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að hér sé á ferðinni stór áskorun fyrir samfélagið, að halda þurfi áfram því starfi sem gefist hefur vel en einnig þurfi að stíga næstu skref. „Þetta eru í raun fjölbreyttar aðgerðir sem þarf að ráðast í. Eitt er til dæmis Virk starfsendurhæfingarsjóður, hann hefur gefið góða raun. Við þurfum einfaldlega að halda áfram að efla fólk til þess að halda aftur út á vinnumarkað. Þetta er samhent átak bæði atvinnurekenda, launþegahreyfingar og síðan auðvitað stjórnvalda og menntakerfisins í ofanálag. Þetta snertir lífeyrissjóðina líka. Ég tel að lögfesting starfsgetumats sé lykilatriði í þessu og við metum hversu fært fólk sé til vinnu jafnvel þó það sé til hlutastarfa og þar er ábyrgð atvinnulífsins mikil. Hún snýr fyrst og fremst að því að tryggja framboð starfa fyrir þá sem eru með skerta starfsorku,“ segir Halldór en að sama skapi hafa SA bent á að stofnanir þurfi að samþætta betur viðbrögð sín og veita fólki sem er í veikindum eða vanda vegna slysa, þjónustu á fyrri stigum með því sem kallast snemmtæk íhlutun.

Starfsgetumat er ein þeirra tillagna sem upprunnar eru úr samráðshópi um breytingar á almannatryggingum og Pétur Blöndal heitinn, veitti foyrstu. Upptaka starfsgetumats krefst því breytinga á lögum um almannatryggingar sem hafa þó ekki náð fram að ganga hingað til.