© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Þetta var hvorki auðugur maður né frá Hong Kong heldur maður sem kynnti sig sem fjármálaverkfræðing eða eitthvað álíka og bjó þá í Kanada,“ segir útvarpsmaðurinn Heimir Karlsson. Í bókinni Ísland ehf. Auðmenn og áhrif eftir hrun eftir blaðamennina Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson segir að Heimir hafi fundað með Steingrími J. Sigfússyni, þáverandi fjármálaráðherra, árið 2009 sem fulltrúi mannsins frá Hong Kong. Þar segir að maðurinn hafi átt að vera svo ríkur að stjórnvöld gætu afþakkað aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Heimir segir þetta ekki alls kostar rétt, hvað þá að hafa sagt umsvif mannsins slík að Ísland gæti afþakkað aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Heimir segist ekkert hafa þekkt manninn heldur þeir átt sameiginlegan íslenskan kunningja.

Langsótt mál sem hefði snúið öllu á haus

„Hann taldi Ísland hugsanlega liggja vel við til að prufa hugmyndir að nýju fjármálakerfikerfi og vildi koma þeim á framfæri. Hann vissi að ég gæti hugsanlega náð eyrum þessara einstaklinga, sem ég gerði fyrir kurteisissakir. En ég hef enga þekkingu á þessum málum og gat ekki borið neitt skynbragð á það hvort eitthvað væri til í þessu hjá honum. Einhverjum fannst þetta kannski ekki vitlaust, en kannski langsótt. Þetta hefði þýtt það að snúa öllu fjármálakerfinu á haus.Hins vegar sýndi hann fram á að Ísland gæti orðið miðstöð þessa nýja kerfis og þar af leiðandi gæti það orðið mjög auðugt. Og örugglega hann líka," segir Heimir í samtali við VB.is.

Heimir segir manninn m.a. hafa rætt málið við Björgvin G. Sigurðsson þegar hann var viðskiptaráðherra og Pétur Blöndal, þá formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Heimir sat fundina og hlýddi á. Hann kannast hins vegar ekki við fundinn með Steingrími J. Sigfússyni.

„Ég hitti Steingrím til að láta hann fá gögn. Það var ákveðið að skoða málið en það fór ekki lengra,“ segir Heimir en útilokar ekki að erlendi fjármálaverkfræðingurinn hafi síðar haft samband við þá sem Heimir hafi rætt við.