„Hann skrifar þetta greinilega í geðshræringu. Ég harma að þetta bréf, eins og það lítur út, hafi komið fyrir almenningssjónir og tel það hvorki félaginu né Baldri til framdráttar,“ segir Magnús Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformaður Eimskipafélagsins, í viðtali við Viðskiptablaðið í dag, spurður um viðbrögð við bréfinu sem Baldur Guðnason, fyrrverandi forstjóri félagsins, sendi honum í lok nóvember á síðasta ári.

Í bréfinu segir Baldur að þeir aðilar sem setið hafi í stjórn XL og Avion ættu að undirbúa persónulegar varnir sínar vegna yfirvofandi lögsókna og segir að sömu aðilar og seldu Avion flugrekstrareiningar séu nú að kaupa sömu einingar út úr félaginu á lægra verði en fái með ábyrgðir Eimskips.

Spurður um sölu flugrekstrarins og um ástæður þess að Eimskip gekkst í ábyrgðir vegna leiguflugvéla XL Leisure Group og lánaði 70% af söluverðinu, segir Magnús að það hafi einfaldlega borist tilboð frá stjórnendum með ákveðnu verði, ákveðnum skilmálum og ákveðnum kjörum.

Í framhaldinu hafi verið tekin ákvörðun um að selja félögin.

„Ég tek ekki þátt í einhverjum bókhaldsbrellum eða sýndarsölum,“ segir Magnús og biður menn að hafa í huga að á þessum tíma „var veröldin svolítið önnur en hún er í dag“.

„Áætlanir um rekstur XL fram í tímann litu ágætlega út,“ segir Magnús.

„Aðgangur að lánsfé var auðveldari en nú. Olíuverð var þrisvar sinnum lægra. Það er aðalkostnaðarliðurinn í rekstri flugfélaga. Þess vegna var þessu tilboði tekið.“

Hann leggur áherslu á að það hafi verið upplýst þegar sala fyrirtækisins var kynnt, að seljandi hefði veitt ábyrgðir. Það hafi komið skýrt fram á sínum tíma í kynningu málsins til fjölmiðla og Kauphallar. Þar hafi komið fram ítarlegar upplýsingar um afkomu og rekstur.

Hann leggur áherslu á að þarna hafi verið aðrir tímar en í dag.

Í júlí-ágúst á síðasta ári hafi XL verið að leita hófanna með endurfjármögnun lánanna til að leysa Eimskip undan ábyrgðinni. Félagið hafi fengið vísbendingar um lánakjör og viðræður um endurfjármögnun hafi verið í gangi þegar heimurinn breyttist og lánsfjárkreppan skall á áður en búið var að loka því máli.

Magnús segir að það sé algengt að þeir sem leigja flugvélar fari fram á ábyrgð frá þeim sem standa á bak við félögin en setji þó sjálf inn ákveðnar tryggingar sem jafngildi yfirleitt nokkurra mánaða leigugreiðslum.

„Flugfloti XL er nýr og flugvélarnar eftirsóttar,“ segir Magnús, „og ég á ekki von á að Eimskip lendi í vandræðum vegna þessa.“

Hann segir að uppistaðan í flugflota XL sé nýlegar 737-800 vélar; það séu þær vélar sem flestir vilji nota og mest eftirspurn sé eftir í dag.