*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 21. október 2017 10:34

Hvorki BF né Flokkur fólksins á þing

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 25,1% fylgi í könnun sem birt var í Morgunblaðinu í morgun. VG fengi 23,2% og Samfylkingin 15,6%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt könnuninni í Morgunblaðinu er Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkurinn og fengi 17 þingmenn. Það er mun lakari árangur en í þingkosningunum í fyrra þegar flokkurinn fékk 29% atkvæða og 21 þingmann. Þótt VG tapi milli kannana mælist fylgi flokksins mun meira en í þingkosningunum síðustu. Flokkurinn nýtur nú stuðnings 23,2% kjósenda og fengi 16 þingmenn. Í kosningunum 2016 fékk VG 15,9% atkvæða og 10 þingmenn.

Samfylkingin stendur nokkurn veginn í stað milli kannana og fengi hún samkvæmt könnuninni 15,6% atkvæða, sem er töluvert betri árangur en í síðustu þingkonsningum. Þingmenn hennar yrðu 11 en voru 3 eftir síðustu kosningar.

Miðflokkurinn fengi 9,8% fylgi og Framsóknarflokkurinn 7,1%. Flokkarnir fengju 6 og 5 þingmenn hvor. Píratar mælast með 8,2% fylgi og Viðreisn 5,7%, sem samkvæmt könnuninni myndi skila 6 og 3 þingmönnum.

Í könnuninni mælist flokkur fólksins mep 3,3% fylgi og Björt framtíð 1,5%. Hvorugur flokkanna kæmi miðað við þetta manni á þing eftir kosningar.

Í frétt á mbl.is segir að notast sé við nýja aðferðafræði við könnunina. 

„Að þessu sinni spurði Fé­lags­vís­inda­stofn­un þátt­tak­end­ur í könn­un­inni tveggja sömu spurn­inga og áður: „Ef gengið yrði til kosn­inga í dag, hvaða flokk eða lista mynd­ir þú kjósa?“ og „En hvaða flokk eða lista finnst þér lík­leg­ast að þú mun­ir kjósa?“ Þriðja spurn­ing­in, sem notuð var í fyrri könn­un­um, „Hvort held­urðu að sé lík­legra, að þú kjós­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn eða ein­hvern ann­an flokk eða lista?“, var ekki notuð að þessu sinni. „Að jafnaði mun þetta hafa þær af­leiðing­ar að fylgi Sjálf­stæðis­flokks­ins mæl­ist um 2% hærra en það hef­ur gert í könn­un­um Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar hingað til, þó sá mun­ur sé breyti­leg­ur milli kann­ana. Fylgi annarra flokka mun minnka á móti og mun mest draga úr fylgi þeirra flokka annarra en Sjálf­stæðis­flokks­ins sem mælst hafa stærst­ir hverju sinni,“ seg­ir í skýr­ing­um sér­fræðinga Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar.“

Nánar má lesa um könnunina á mbl.is

Stikkorð: Kosningar 2017