Lúxemborgíska félagið Moon Capital s.á.r.l. er eigandi 100% hlutafjár í Apogee ehf. Síðarnefnda félagið var eigandi 50% hlutafjár í færeysku SMS verslanakeðjunni þar til hluturinn var seldur í síðasta mánuði. Almennt hefur verið talað um að Apogee sé í eigu Jóhannesar Jónssonar, sem oft er kenndur við Bónus. Erfitt er hins vegar að finna ítarlegar upplýsingar um Moon Capital í fyrirtækjaskránni í Lúxemborg. Samkvæmt upplýsingum þaðan var félagið stofnað snemma árs 2010 af breska félaginu European Marketing & Research Services ltd. og framkvæmdastjóri Moon Capital var Karim Van Den Ende.

Hugsanlega hefur Jóhannes eða félag í hans eigu tekið yfir eða keypt Moon Capital eftir stofnun þess, en ekki er að finna upplýsingar um slíkt í fyrirtækjaskránni. Ársreikningur Moon Capital fyrir árið 2010 er að sama skapi áhugaverður. Eignir, skuldir, tekjur og gjöld eru öll færð á 0,0 evrur, þrátt fyrir að félagið hafi í árslok 2010 átt íslenska félagið Apogee. Þetta rennir þó stoðum undir þá ályktun að 333 milljóna króna skuld Apogee sé ekki við móðurfélagið, heldur við annan „tengdan aðila“.