*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 23. mars 2020 12:40

Hvorki flugmönnum né þjónum sagt upp

Af þeim 240 starfsmönnum Icelandair sem sagt var upp var enginn í áhöfnum flugfélaga. „Það birtir aftur til,“ segir forstjórinn.

Ritstjórn
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair.
Haraldur Guðjónsson

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir að engum í flugáhöfnum fyrirtækisins hafi verið sagt upp í morgun að því er Morgunblaðið hefur eftir honum. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun var 240 starfsmönnum sagt upp hjá félaginu samhliða því að 92% allra starfsmanna fara í hlutastörf.

Þar á meðal flugliðar en Bogi segir að óskað er þess að flugmenn taki á sig 50% launaskerðingu, og sama á við um allt starfsfólk Air Iceland Connect, innanlandsflugsdótturfélagsins sem áður hét Flugfélag Íslands. Áður hafði félagið boðið starfsfólki að fara í tímabundið launalaust leyfi.

„Þetta er aðgerð til tveggja mánaða,“ segir Bogi Nils sem segir félagið verða að geta tekið hraðar ákarðnir og verið nógu sveigjanlegt til að geta komið sterkt inn á ný þegar opnist á ný fyrir bókanir. „En við þurfum að hafa í huga að það birtir aftur til.“

Bogi sér fyrir sér að minnsta kosti verði boðaður 25% samdráttur hjá félaginu að veruleika, en ekki sé enn tímabært að segja til um hvort háönnin, sumartíminn detti alveg út. „Við teljum að eftirspurnin muni koma aftur. Fólk vill áfram ferðast og Ísland verður áfram eftirsóttur áfangastaður.“