Þegar Ólafur Þór Hauksson tók við nýstofnuðu embætti sérstaks saksóknara í febrúar 2009 voru hvorki símar, tölvur né húsgögn á skrifstofu embættisins. „Þetta skrifborð hér var raunar í bílskúr einhvers staðar,“ segir Ólafur í samtali við tímaritið Bloomberg Businessweek. Í nýjasta tölublaðinu, sem kom út í dag, er ítarlega fjallað um hrun alþjóðlega fjármálakerfisins fyrir fimm árum síðan. Hverju ári frá hruni er gefið ríkulegt pláss í sérstakri útgáfu tímaritsins og er fjallað um málefni Íslands í tengslum við árið 2012. Það ár var fyrsti sakborningurinn sakfelldur í máli sem höfðað var af sérstökum saksóknara.

„Ólafur Hauksson sótti ekki einu sinni um starfið þegar það var fyrst auglýst,“ segir í inngangi greinarinnar. Á einum stað er honum líkt sem „stórum manni með hár sem situr órólega á höfði hans“, og sem manni sem líði illa í jakkafötum. Þegar Ólafur tók við starfinu hafi hann beðið Magnús Guðmundsson, vin og veiðifélaga, um að fylgjast með sér í fjölmiðlum og láta sig vita af mistökum í viðtölum eða ef bindið væri skakkt.

Þá segir að ef litið sé til ferilskrár Ólafs hafi hann ólíklega verið rétti maðurinn til þess að stýra embættinu. Sem lögreglustjóri á Akranesi hafi vinna hans helst snúið að umferðarlagabrotum, handtöku ökumanna undir áhrifum áfengis og einstaka fíkniefna- og kynferðisbrotamálum. Ólafur hafi þó haft eitt að bera umfram aðra. Hann var tilbúinn að taka að sér starfið. „Ég taldi spurningum ósvarað,“ segir Ólafur í viðtali við blaðamann Bloomberg og bætir við því að eingöngu tveir hafi sótt um starfið. „Ég held að hinn hafi ekki einu sinni verið lögmaður,“ segir hann.

Bent er á að embætti sérstaks saksóknara hafi nú um 140 mál til rannsóknar. Þar af tengist um helmingur þeirra efnahagshruninu árið 2008. Í upphafi voru starfsmenn alls fjórir en eru í dag 109. Hjá embættinu starfa lögreglumenn, lögfræðingar, saksóknarar, endurskoðendur og fyrrum starfsmenn bankanna sem eru til rannsóknar.

Bjóst ekki við svo stórum málum

„Þegar reykurinn hverfur sérðu tiltölulega kunnuglega hegðun. Þú sérð fjárdrætti, fjársvik, markaðsmisnotkun og innherjaviðskipti,“ segir Ólafur um þau mál sem eru eða hafa verið til rannsóknar. Hann býst við að málsmeðferð mála er varða markaðsmisnotkun bankanna fari fram á næsta ári og telur að þau geti orðið stærstu mál sinnar tegundar í sögunni. „Enginn bjóst við því, að minnsta kosti í upphafi, að þetta yrði svo stórt eins og raunin ber vitni,“ segir Ólafur. Hann segist hafa búist við einangruðum málum þar sem einhverjir hafi reynt að hagnast á hruninu. „En sönnunargögnin sem komu í ljós neyddu hann til að rista dýpra. Mynstur kom í ljós, þar sem starfsmenn íslensku bankanna áttu í flóknum viðskiptum, meðal annars lán til hluthafa og náinna viðskiptamanna, gerð til þess að ýta undir verð hlutabréfanna og afmá veikleika sem gætu leitt til áhlaups hluthafa,“ segir í umfjöllun Bloomberg Businessweek.

„Þú getur komist að tveimur ályktunum, að glæpur hafi verið framinn eða ekki,“ segir Ólafur. „Ég tel gagnlegt að gera skýran greinarmun á því sem kallað er „viðskipti“ og því sem kallað er „rangt“,“ segir hann.

Reimar og Gestur gagnrýna sérstakan

Eins og þekkt er hafa aðferðir og ákærur sérstaks saksóknara verið umdeildar meðal þeirra sem hafa verið til rannsóknar. Í því sambandi er rætt við Reimar Pétursson hæstaréttarlögmann. Hann hefur verið verjandi í málum sérstaks saksóknara. „Embættið rannsakar efnahagsglæpi. Staðreyndirnar ættu að vera aðgengilegar í bókum fyrirtækjanna og í bókum bankanna,“ segir hann í samtali við Bloomberg Businessweek.

Í viðtalinu við tímaritið viðurkennir Ólafur að í minnsta kosti einu máli hafi embættið „farið yfir mörkin“. Það var í máli embættisins gegn Magnúsi Guðmundssyni, fyrrum forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, og Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrum bankastjóra Kaupþings, en Magnús og Hreiðar Már hlýddu á upptökur af símhlerunum þar sem þeir ræddu við lögmenn sína. Fjallað var um málið í íslenskum fjölmiðlum. „Við höfum leitað að ástæðum þess að símtölunum var ekki eytt,“ segir Ólafur. „Þegar margir símar eru hleraðir á sama tíma þá getur þetta gerst. Við vissum ekki að þessi símtöl voru til.“ Hann segir að símtölin hafi ekki verið notuð fyrir rétti og eftir að þau fundust hafi símtölunum verið eytt.

Einnig er rætt við Gest Jónsson hæstaréttarlögmann, sem sagður er vera einn helsti gagnrýnandi sérstaks saksóknara. Gestur er efins um að sanngjörn réttarhöld geti farið fram fyrir íslenskum rétti. „Sannleikurinn er sá að þegar þú ert reiður þá ættir þú ekki að taka mikilvægar ákvarðanir. Að mínu mati ríkir mikil reiði í samfélaginu, það hefur einnig áhrif á dómara,“ segir Gestur. Bent er á að Gestur hafi sagt sig frá málinu er tengist viðskiptum Al Thani sjeiks og Kaupþings vegna þess að hinum ákærðu hafi ekki verið gefin nægur tími til þess að byggja sína málsvörn.

Ólafur bregst við ummælunum og segir að öllum brögðum sé beitt af hálfu verjenda, sem hafi færa lögmenn sér við hlið. „Hvert skref er barátta,“ segir Ólafur.

Gátu ekki bjargað bönkunum

Auk þess sem fjallað er um helstu ákærur sérstaks saksóknara er rætt er við fleiri Íslendinga í umfjöllun tímaritsins, meðal annars Margréti Hauksdóttur, systur Ólafs, og Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans og annan höfund bókarinnar Ísland ehf. Haft er eftir Þórði Snæ að íslensk stjórnvöld hafi einfaldlega ekki getað farið sömu leið og aðrar þjóðir sem komu einakreknum bönkum til bjargar í fjármálakrísunni. „Bankarnir voru mun stærri en Ísland gat ráðið við,“ segir hann en í greininni er fjallað um „íslensku leiðina“ sem í erlendum fjölmiðlum hefur oft verið nefnd sem dæmi um óhefðbundna, en rétta, leið stjórnvalda í kjölfar hrunsins, þar sem íslensk stjórnvöld björguðu ekki bönkunum.

Heimildarmynd samhliða útgáfunni

Í sérstakri útgáfu Bloomberg Businessweek í tilefni af því að fimm ár eru liðin frá upphafi fjármálakrísunnar er ítarlega fjallað um áhrif hennar um allan heim. Hank Paulson, fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna og fyrrum forstjóri Goldman Sachs, prýðir forsíðuna. Í viðtali við blaðið ræðir hann um upplifun sína af hræringunum og eftirmála.

Samhliða útgáfu tímaritsins kemur út heimildarmynd sem ber heitið Hank: Five Years From the Brink . Í myndinni er rætt við Paulson um veigamikið hlutverk hans í krísustjórnuninni þegar fjármálakerfið var við það að falla á hliðina. Leikstjóri heimildarmynarinnar er Joe Berlinger, sem hlotið hefur tilnefningu til Óskarsverðlaunanna. Myndin verður aðgengileg á Netflix frá og með 16. september næstkomandi.