Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sagði að umræðan um framtíðarfyrirkomulag peningamála á Íslandi hafi „aldrei verið heitari en nú,“ er hann setti ráðstefnu um evruvæðingu á Íslandi í Þjóðmenningarhúsinu í gær. Um 70-80 manns hlýddu á framsögur á ráðstefnunni. Fræðimenn frá Háskólanum á Bifröst og Háskólanum í Reykjavík eru meðal þeirra sem hafa unnið skýrslur í samstarfi við ráðuneytið, en fyrirhuguð er útgáfa bókar í tengslum við ráðstefnuvinnuna.

„Þetta er mikilvægt dæmi um hvernig fræðasamfélagið og stjórnmálasviðið geta unnið saman að því að byggja undir svör við okkar langstærstu spurningum. Framtíðarfyrirkomulag peningamál er langstærsta einstaka verkefni stjórnvalda núna og á næstu misserum, það blasir við öllum. Þessi umræða sem fer fram hér í dag er hvorki skrum né til skammar,“ sagði viðskiptaráðherra. Ráðherrann vísaði þarna eflaust til orða Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra sem kallaði suma þá lýðskrumara sem töluðu niður íslensku krónuna.

„Að lokum er þetta þó að sjálfsögðu pólitískt mál, og stjórnmálaflokkanna að leiða það til lykta.“ Björgvin sagði evruumræðuna stærsta málið í íslenskri þjóðmálaumræðu síðan Íslendingar gerðust aðilar að Evrópska efnhagssvæðinu.

Hann sagði nánast einsýnt að einhliða, eða tvíhliða upptaka evru án aðildar að Evrópusambandinu yrði afar torfær leið. „Núverandi þróun, sem felur í sér sjálfkrafa evruvæðingu, getur verið alvarleg ógn við fjármálalegan stöðugleika á Íslandi,“ sagði Björgvin, og vísaði þar til þess að fjöldi íslenskra fyrirtækja hefur nú sótt um að gera upp bækur sínar í evrum.

„Um er að ræða stórt viðfangsefni sem ber að leiða til lykta á næstu misserum.“