HydroKraft Invest er heiti á nýju alþjóðlegu fjárfestingafélagi í sameiginlegri eigu Landsbankans og Landsvirkjunar sem stofnað var í dag. HydroKraft Invest er ætlað að fjárfesta í verkefnum á erlendri grundu sem tengjast endurnýjanlegri orkuvinnslu, með áherslu á vatnsafl að því er kemur fram í tilkynningu.

Björgólfur Guðmundsson formaður bankaráðs Landsbankans, Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri Landsbankans, Jóhannes Geir Sigurgeirsson stjórnarformaður Landsvirkjunar og Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar undirrituðu samning um stofnun félagsins á blaðamannafundi í dag, föstudaginn 16. febrúar 2007.

Fáar þjóðir í heiminum búa yfir jafnmikilli þekkingu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og Íslendingar, en 72% af frumorkunotkun landsmanna kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum samanborið við 13% heimsmeðaltal. Með stofnun félagsins vilja Landsbankinn og Landsvirkjun taka höndum saman um útflutning á þessari verðmætu þekkingu.

HydroKraft Invest er ætlað að leiða umbótaverkefni á sviði orkumála erlendis, einkum í Evrópu. Áhersla verður lögð á tæknilegar og rekstrarlegar endurbætur á eldri vatnsaflsvirkjunum í því skyni að bæta nýtingu þeirra og auka framleiðni.

Landsbankinn og Landsvirkjun eiga jafnan hlut í félaginu og leggur hvor aðili til tvo milljarða króna í hlutafé. Áætlað er að skjóta styrkari stoðum undir fjárhag félagsins með söfnun hlutafjár hérlendis á næstunni og mun Landsbankinn tryggja sölu á hlutafé í félaginu fyrir einn milljarð króna til viðbótar. Í kjölfarið er ráðgert að skrá HydroKraft Invest á erlendan hlutabréfamarkað.

Landsbankinn og dótturfélög hans hafa tekið þátt í fjölmörgum fjármögnunarverkefnum á sviði endurnýjanlegrar orku. Verðbréfafyrirtæki bankans í Evrópu greina fyrir viðskiptavini sína yfir 800 félög, þar af um 40 fyrirtæki í orkugeiranum. Bankaráð Landsbankans ákvað nýverið að leggja enn frekari áherslu á þetta svið fjármögnunar, eins og kynnt var á ráðstefnu á vegum Kepler / Landsbanka í París á dögunum.

Landsvirkjun hefur á undanförnum áratugum verið í fararbroddi í uppbyggingu á raforkukerfi Íslands og er helsti raforkuframleiðandi landsins. Fyrirtækið hefur í mörg ár unnið jafnhliða að uppbyggingu og endurbótum á raforkukerfum í öðrum löndum. Má þar nefna þátttöku í franska félaginu Hecla sem vinnur að úttekt og endurbótum á háspennulínukerfi frönsku rafveitnanna. Einnig er Landsvirkjun þátttakandi í fyrirtækinu Sipenco í Sviss sem annast endurbætur á vatnsaflsvirkjunum þar í landi.


Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri Landsbankans segir eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku eiga eftir að aukast verulega á næstu árum. Hann telur tækifæri fólgin í því fyrir Landsbankann að sameina í HydroKraft Invest fjármálaþekkingu bankans og reynslu Landsvirkjunar í rekstri og byggingu vatnsaflsvirkjana og orkukerfa.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson stjórnarformaður Landsvirkjunar segist telja að samstarf við Landsbankann, sem býr yfir sérþekkingu á fjárfestingum og atvinnurekstri í Evrópu, styrki fyrirtækið verulega í útrás með þá þekkingu og reynslu á sviði orkumála sem Landsvirkjun býr yfir og segir félagið eiga fullt erindi á alþjóðavettvang.