Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur í hyggju að breyta fyrirkomulagi prófs í verðbréfaviðskiptum  (áður kallað löggilding verðbréfamiðlara) en prófið hefur staðið nánast óbreytt í 30 ár. Inn á samráðsgátt Ríkistjórnarinnar kemur fram að ráðuneytið vilji breyta prófinu til samræmis við það sem nú þekkist á hinum Norðurlöndunum.

Norðurlöndin hafa á síðustu árum endurskoðað fyrirkomulag sitt vegna umræddra prófa, m.a. til að bregðast við nýjum kröfum byggðum á tilskipun 2014/65/ESB um markaði fyrir fjármálagerninga betur þekkt sem MiFID 2.

Helstu tilögur á um breytingar á fyrirkomulagi prófsins fela meðal annars í sér að um verði að ræða réttindi en ekki próf og að prófsefni verði stytt verulega og gert hnitmiðaðra en í núverandi formi þarf sitja 10 próf sem öll eru 4 klukkustundir að lengd. Þá er lagt til að kynnt verði til sögunnar ný réttindi og próf fyrir fjárfestingarráðgjafa til að bregðast við nýjum kröfum MiFID2 auk þess sem að gerð verði krafa um  endurmenntun (símenntun) hjá þeim aðilum sem öðlast annað hvort almenn verðbréfaréttindi eða fjárfestingarráðgjafaréttindi.

Tillögurnar byggja á skýrslu sem  dr. Andri Fannar Bergþórsson vann fyrir prófnefnd verðbréfaviðskipta um endurskoðun á fyrirkomulagi prófs til verðbréfaviðskipta. Skýsluna má nálgast á vefsíðu samráðsgáttarinnar.

Á samráðsgáttinni kemur fram að ráðuneytið stefni ekki að því, að svo stöddu, að gerð verði krafa um að þeir sem hlotið hafa verðbréfaréttindi eða fjárfestingarráðgjafaréttindi muni þurfa að þreyta próf á vegum prófnefndar á nokkurra ára fresti til að viðhalda réttindum sínum, heldur að þeir sýni fram á að þeir hafi viðhaldið þekkingu sinni með símenntun, t.d. með viðurkenndum námskeiðum.

Ganga áætlanir ráðuneytisins út á að nýtt fyrirkomulag um verðbréfaréttindi og fjárfestingarráðgjafaréttindi gangi í gildi um haustið 2020. Hægt er að gera athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar til 5. júlí næstkomandi inn á samráðsgáttinni.