Hrunamanahreppur og fyrirtækið Byggð á Bríkum ehf. hafa undirritað samning um uppbyggingu íbúðabyggðar í landi Sunnuhlíðar á Flúðum. Þar á að byggja 130 íbúðir í einbýlis- og parhúsum á um 50 hekara landi.  Gert er ráð fyrir að áfangaskipta svæðinu. Í fyrsta áfanga er fyrirhugað að reisa alls 30 íbúðir á 25 lóðum.

Þegar svæðið verður fullnýtt verða á svæðinu um 90 byggingar og 130 íbúðir. Eigendur Byggðar á Bríkum eru bræðurnir Guðmundur og Árni Hjaltasynir frá Galtafelli og Páll Guðmundsson frá Sunnuhlíð.

Þessar stóru lóðir eru hugsaðar fyrir ræktunarfólk, hestamenn og þá sem vilja hafa rúmt um sig og búa í kyrrð sveitarinnar. Varpað er upp þeim möguleika að eigendur smábýla geti haft beit fyrir hross á flatlendinu syðst á lóðunum.